Ný Fab Lab-smiðja opnar í Eddufelli 2 í Breiðholti í lok janúar í samstarfi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Reykjavíkurborgar og Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Undirbúningur smiðjunnar, sem framvegis mun heita Fab Lab Reykjavík, hefur staðið yfir í hálft ár, en í smiðjunni munu ungir sem aldnir fá tækifæri til að þjálfa sköpunargleðina og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni. Nýsköpunarmiðstöð Íslands mun hafa umsjón með verkefninu, daglegum rekstri smiðjunnar og sjá um þjálfun kennara grunn- og framhaldsskóla, sem stefna vilja á nýsköpun í námi nemenda sinna.

Stafræn smiðja með tækjum til að búa til nánast hvað sem er

Fab Lab Reykjavík er fimmta smiðja sinnar tegundar á Íslandi. Í smiðjunni er ýmis konar tækjabúnaður, t.d. stór fræsivél til að búa til stóra hluti úr tré og plasti, lítil fræsivél til að fræsa rafrásir eða í þrívídd til mótagerðar, þrívíddarprentari, laserskerar til að skera út hluti í t.d. pappa, plexígler, MDF eða við og merkja í gler, svo dæmi séu tekin. Þá verður í smiðjunni vinylskeri til að skera út límmiðafilmur og koparfilmur til að gera sveigjanlegar rafrásir. Í smiðjunni verður einnig rafeindabúnaður, sem hægt er að lóða á rafrásabrettin og forrita ásamt ýmsum gerðum af skynjurum. Þá verður einnig þrívíddarskanni og fjöldi tölva, hlaðinn opnum og frjálsum hugbúnaði til þess að hanna og búa til nánast hvað sem er.

Markmiðið með starfsemi Fab Lab Reykjavík er að auka þekkingu skólafólks og almennings á persónumiðaðri framleiðslu og stafrænum framleiðsluaðferðum. Verkefninu er ætlað að auka tæknilæsi og tæknivitund almennings, efla hæfni til nýsköpunar í námi og atvinnulífi og auka áhuga á verk- og tækninámi í grunn- og framhaldsskólum.

Allar nánari upplýsingar um þennan nýja Fab Lab vettvang í Reykjavík er að finna á www.fablab.is