Um notkun gervigreindar í FB

Gervigreind mun hafa áhrif á nám og störf nemenda og kennara, kennsluhætti, nám og námsmat, þó enn sé ekki fullljóst með hvaða hætti það verður. Skólinn hefur sett fram eftirfarandi stefnu og leiðbeiningar um notkun gervigreindar:

Stefna um notkun gervigreindar í skólanum

Allar reglur sem gilt hafa til þessa í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti um notkun hjálpartækja eða búnaðar í námi, verkefnavinnu og prófum gilda einnig um notkun gervigreindar. Fylgja skal reglum skólans varðandi notkun heimilda, svo og varðandi notkun hvers kyns hjálpartækja eða búnaðar við námsmat og próftöku.

Gervigreind getur verið áhrifaríkt hjálpartæki til að efla, einfalda og flýta fyrir vinnu ef rétt er með hana farið. Notkun hennar sem hjálpartækis þarf að uppfylla allar kröfur skólans bæði frá tæknilegu og siðferðilegu sjónarhorni.

  • Vísa þarf til heimilda eftir gildandi reglum skólans um notkun heimilda.
  • Fylgja þarf sömu siðferðilegu reglum og skyldum og gilda um notkun annarra tækja og tóla.
  • Sé gervigreind misnotuð í skólastarfi gilda sömu reglur og um allt annað misferli í námi.

Leiðbeiningar um notkun gervigreindar í námi

  1. Nemendum ber að fylgja fyrirmælum kennara um notkun gervigreindar við lausn verkefna. Leiki vafi á því hvort og hvernig heimilt sé að nota gervigreind við lausn tiltekins verkefnis ber nemendum að ráðfæra sig við viðkomandi kennara.
  2. Ef nemendur nota gervigreind í samráði við kennara við úrlausn verkefna ber þeim að gera grein fyrir því hvernig það var gert og hvernig gengið var úr skugga um áreiðanleika gagnanna. Ávallt skal fylgja viðurkenndum aðferðum um frágang heimilda.
  3. Notkun gervigreindar skal uppfylla öll siðferðileg viðmið sem gilda innan skólans um notkun á hugverkum annarra. Notkun gervigreindar í tilvikum þegar slíkt hefur ekki verið heimilað af kennara felur í sér brot á reglum skólans og getur haft í för með sér agaviðurlög.