Framhaldsskólaeining, námsuppbygging, lokamarkmið og lokapróf

Framhaldsskólaeiningin er skilgreind út frá vinnuframlagi nemenda. Ein f-eining er miðuð við þriggja daga vinnu nemandans í 6–8 klukkustundir á dag. Inni í þessari mælingu er tímasókn nemandans, heimavinna, prófundirbúningur og próftaka. Fullt ársnám nemenda er 66–68 f-einingar og er þá miðað við 180 daga skólaár. F-einingafjöldi áfanga sést í tveimur síðustu tölustöfunum í áfanganúmerinu.

Kröfur um námsframvindu

Meginstefna FB er að allir nemendur nái árangri í námi sínu. Þannig er gengið út frá því að nemendur stundi námið með eðlilegum námshraða og útskrifist innan tilskilinna tímamarka. Miðað er við að eðlilegur námshraði sé 33–34 f-einingar (17-18 gamlar einingar) á önn að meðaltali og skulu nemendur ekki velja færri en 20 f-einingar (12 gamlar einingar). Ef nemandi lýkur færri en 10 f-einingum (6 gömlum einingum) á önn telst námsframvinda hans óviðunandi og er honum vísað úr skóla. Undanþágur frá kröfum um námsframvindu eru metnar sérstaklega.

Undanþágur frá einstökum námsáföngum

Nemendur með greiningu um sértæka námsörðugleika geta sótt um undanþágu frá einstökum námáföngum. Nemendur skulu þó taka aðra áfanga í stað þeirra sem þeir fá undanþágu frá. Undanþágunefnd leggur mat á undanþáguumsóknir nemenda og leggur tillögu um afgreiðslu fyrir skólameistara. Undanþágunefnd skipa náms- og starfsráðgjafar og umsjónarmaður námsvers. Áður en undanþágan er veitt skal skólameistari gera nemendunum grein fyrir því að undanþágan gæti skert möguleika þeirra til náms í háskólum eða möguleika til starfa á viðkomandi starfssviði ef um starfsnám er að ræða. Á prófskírteini nemenda skal ávallt gerð grein fyrir undanþágum frá námsframvindu eða námsmati.

Nemendur, sem hafa dvalið utan Norðurlanda á grunnskólaaldri, geta sótt um að taka annað tungumál í staðinn fyrir Norðurlandamál. Nemendur, sem fengið hafa undanþágu frá námi í Norðurlandamáli í grunnskóla, geta einnig fengið undanþágu frá Norðurlandamáli í framhaldsskóla. Þeir skulu þó taka aðra grein í staðinn.

Heimilt er samkvæmt aðalnámskrá að meta móðurmál nemenda með annað móðurmál en íslensku til eininga í frjálsu vali eða til eininga í stað annars erlends tungumáls. Nemanda ber þó að sýna fram á kunnáttu sína í tungumálinu í stöðuprófi.

Nemandi sem stundar umfangsmikla líkamsþjálfun á vegum sérsambands og/eða íþróttafélags undir stjórn sérmenntaðs þjálfara, íþróttafræðings eða kennara, samhliða námi í FB, getur óskað eftir því að vera undanþeginn vissum áföngum eða áfangahlutum í íþróttum, líkams- og heilsurækt. Þá þarf nemandinn að skila inn þjálfunaráætlun, staðfesta af viðkomandi þjálfara, fyrir lok annarrar viku námsannar og síðan aftur í lok annar staðfestingu á því að áætlunin hafi gengið eftir. Að hámarki geta nemendur fengið eina námseiningu metna vegna þjálfunar fyrir hverja námsönn á meðan þeir eru í námi, þó aldrei fleiri en 5 f-einingar samtals.

P-áfangar og viðbótaráfangar í dreifnámi

Þegar nemandi er kominn á lokaönn og ekki tekst að koma öllum námsáföngum hans fyrir í töflu er nemandanum heimilt að taka P-áfanga sér að kostnaðarlausu. Aðstoðarskólameistari veitir nemanda heimild til slíks og undirbýr samning milli nemanda og kennara. Aðrir nemendur geta sótt um að bæta á sig námsáfanga í dreifnámi (P-áfanga), en þurfa þá að greiða einingagjald skv. gjaldskrá skólans.

Úrsögn úr áfanga og úr námi í FB

Nemendur geta sagt sig úr námsáföngum fyrstu þrjár vikur annarinnar, en ekki eftir það. Öllum sem skráðir eru í námsáfanga eftir að þrjár vikur eru liðnar ber að ljúka viðkomandi áfanga. Geri þeir það ekki eiga þeir á hættu að missa rétt til skólavistar á næstu önn. Nemandi sem hverfur frá námi á miðri námsönn eða fær E í skólasókn tvær annir í röð hefur fyrirgert rétti sínum til áframhaldandi skólavistar.