Fjármál

FB er opinber framhaldsskóli og hefur sérstaka fjárveitingu í fjárlögum. Fjárveiting til skóla er ákveðin með hjálp reiknireglna sem ráðherra hefur ákveðið í reglugerð. Auk fjárveitinga á fjárlögum er skólum gert að innheimta innritunar- og efnisgjöld við upphaf námsannar, svo og ýmis fleiri gjöld sem kveðið er á um í lögum. Dæmi um slíkt eru gjöld vegna valkvæðra ferða á vegum skólans, s.s. námsferða, safnferða og leikhúsferða, svo og gjöld vegna sértækrar þjónustu sem ekki heyrir undir reglulega starfsemi skólans, s.s. skápaleigu, skírteinisútgáfu og þess háttar. Nánar er kveðið á um þessa gjaldtöku í reglugerð um gjaldtökuheimildir opinberra framhaldsskóla nr. 614/2009.

Fjármálastjórnun skólans fer eftir fyrirmælum um meðferð opinbers fjár. Unnar eru ársáætlanir sem menntamálaráðuneytið staðfestir og gerðar eru greiningar til að skerpa sýn á það hvernig best megi ráðstafa fé í samræmi við stefnu skólans. Rekstraryfirlit eru notuð til að fylgjast með því að fjárstýring sé í samræmi við áætlanir. Í skólanum er virkt útgjaldaeftirlit og skilgreint samþykktarferli reikninga, þannig að ekki er stofnað til útgjalda án heimildar yfirmanns sem ber ábyrgð á viðkomandi deild eða sviði. Ársskýrslur og ársreikninga má finna á heimasíðu.