Fjármál

FB er opinber framhaldsskóli og hefur sérstaka fjárveitingu í fjárlögum. Fjárveiting til skóla er ákveðin með hjálp reiknireglna sem ráðherra hefur ákveðið í reglugerð. Auk fjárveitinga á fjárlögum er skólum gert að innheimta innritunar og efnisgjöld við upphaf námsannar, svo og ýmis fleiri gjöld sem kveðið er á um í lögum. Dæmi um slíkt eru gjöld vegna valkvæðra ferða á vegum skólans, s.s. námsferða, safnferða og leikhúsferða, svo og gjöld vegna sértækrar þjónustu sem ekki heyrir undir reglulega starfsemi skólans, s.s. skápaleigu, skírteinisútgáfu og þess háttar. Nánar er kveðið á um þessa gjaldtöku í reglugerð um gjaldtökuheimildir opinberra framhaldsskóla nr. 614/2009. Kennsla í sumarskólanum er alfarið kostuð af nemendum, enda hlýtur skólinn engar fjárveitingar til þeirrar kennslu. Á heimasíðu má finna gjaldskrá skólans fyrir dagskóla, kvöldskóla og sumarskóla.

Fjármálastjórnun skólans fer eftir fyrirmælum um meðferð opinbers fjár. Unnar eru ársáætlanir sem menntamálaráðuneytið staðfestir og gerðar eru greiningar til að skerpa sýn á það hvernig best megi ráðstafa fé í samræmi við stefnu skólans. Rekstraryfirlit eru notuð til að fylgjast með því að fjárstýring sé í samræmi við áætlanir. Í skólanum er virkt útgjaldaeftirlit og skilgreint samþykktarferli reikninga, þannig að ekki er stofnað til útgjalda án heimildar yfirmanns sem ber ábyrgð á viðkomandi deild eða sviði. Ársskýrslur og ársreikninga má finna á heimasíðu.