Tengsl við atvinnulífið

Eitt af megin hlutverkum framhaldsskólans er að búa ungt fólk undir störf á vinnumarkaði. í FB fer fram formleg starfsmenntun húsasmiða, rafvirkja, sjúkraliða og snyrtifræðinga. Í löndum þar sem starfs- og verkmenntun er með mestum blóma tekur atvinnulífið virkan þátt í menntun ungs fólks og menntunin fer að hluta fram við raunverulegar aðstæður, úti á vinnumarkaði. Hér á landi er námið að stærstum hluta innan veggja skólans. Því er brýnt að rækta góð tengsl við atvinnulífið og veita aðilum atvinnulífsins aðgang að því sem fram fer í skólanum og auka gagnkvæma upplýsingamiðlun um námsfyrirkomulag annars vegar og þær kröfur sem gerðar eru um verkkunnáttu og færni úti á vinnumarkaðnum.

Hlutverk fagstjóra verknámsdeilda er m.a. að halda uppi virkum tengslum við atvinnulífið og vaka yfir því að skilaboð um nýja tækni og nýjar kunnáttu- og færnikröfur nái til kennara og nemenda. Helstu aðilar atvinnulífs er viðkoma námi í FB eru Rafiðnasamband Íslands, Trésmiðafélag Reykjavíkur, Byggiðn – Félag byggingamanna, Sjúkraliðafélag Íslands, Ríkisspítalar, Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins.