Nærsamfélagið

Áhersla er lögð á að eiga í góðu samstarfi við nærsamfélag skólans í Breiðholti. Margvísleg tengsl eru við alla grunnskóla hverfisins, t.d. í gegnum samstarf un kennslu tiltekinna áfanga framhaldsskólans handa grunnskólanemendum og í samstarfi um FabLabið. Hólabrekkuskóli er okkar næsti nágranni og nemendur beggja skóla stunda skólaíþróttir hlið við hlið í Íþróttahúsinu við Austurberg.

Starfsfólk FB tekur þátt í samræðu og samvinnu um málefni Breiðholtshverfisins. Náms- og starfsráðgjafar í skólum hverfisins funda ár hvert um málefni nemenda sem eru að færast frá grunnskóla yfir í framhaldsskóla. Skólinn á í góðu samstarfi við Þjónustumiðstöð Breiðholts um sálfræðiráðgjöf og þjónustu við nemendur. Breiðholtsbylgjan er sameiginlegur endurmenntunardagur stofnana hverfisins að hausti og taka starfsmenn FB þátt í henni.

Á liðnum misserum hafa í gegnum samfélagsþjónustuverkefni nemenda skapast tengsl við ýmsar stofnanir og fyrirtæki í nágrenni skólans eins og t.d. Félagsstarfið í Gerðubergi, Leikskólana Bakkaborg, Hólaborg og Jöklaborg, Seljahlíð heimili aldraðra, Skógarbæ, Dýraspítalann Víðidal og Kattholt.