Starfsbraut

Nám við starfsbraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti hefur það að markmiði að þroska með nemendum hæfni og getu sem gerir þeim fært að takast á við fjölbreytt viðfangsefni daglegs lífs á heimili, í vinnu, tómstundum og frekara námi.
Unnið er að því að auka sjálfstæði og sjálfsábyrgð nemenda með því að gera þá meðvitaðri um eigin persónu, félagsleg samskipti og umhverfið. Markvisst eru þeim veitt tækifæri til að öðlast nýja reynslu sem og að tileinka sér þekkingu sem getur nýst þeim að námi loknu.
Kennslutíminn er í samræmi við starfsár framhaldsskólans. Kennsla hefst um miðjan ágúst og lýkur um miðjan maí.

Kennsluhættir og námsefni

Lögð er áhersla á fjölbreytta kennsluhætti sniðna að þörfum einstaklinga og getu. Unnið er út frá einstaklingsmiðuðum námsáætlunum. Metnaður er lagður í að nýta nútímatækni, bæði í kennslu og við gerð námsganga. Við skipulag námsins er tekið mið af óskum, áhugasviði og möguleikum nemanda, óskum og áliti foreldra ásamt þeim möguleikum sem skólinn og umhverfið býður uppá hverju sinni.

Kennsluaðferðir og kennsluefni eru sniðnar að hverjum nemanda. Nýsköpun í námsefni og kennsluaðferðum er forsenda einstaklingsmiðaðs náms. Í boði eru auk kjarnagreina, nám í list – og verkgreinum, íþróttum og heilsueflingu, upplýsingatækni, lífsleikni og starfsnámi. Gagnkvæmt traust þarf að ríkja á milli kennara og nemanda og hlusta þarf á óskir nemanda, auk þess sem mikilvægt er að bera kennsl á persónulega áfangasigra sem einstaklingurinn nær á námstímanum.

Til að hámarka árangur nemenda þarf að hafa gott samstarf og samvinnu við nemandann, fjölskyldu hans og tengslastofnanir. Nemandinn er hvattur til þess að nýta sér nemendaaðstöðu skólans og unnið er að því að hann fái tækifæri til þess að tengjast nemendum af öðrum brautum með þátttöku í almennum kennslustundum sé þess kostur, auk félagsstarfs.

Áhersla er lögð á nýsköpun í kennslu og kennslufræðum með nýjungum og gagnrýnni hugsun. Vilji er til að framkvæma nýjar hugmyndir og síðast en ekki síst nýtist hæfni og reynsla starfsmanna til að miðla öðru fagfólki af reynslunni.

Á 3 og 4 námsári er lögð áhersla á starfstengt nám og kynningu á vinnustöðum.

Kennsluaðstaða

Kennsla á starfsbraut fer fram í aðalbyggingu skólans og í öðru húsnæði á skólalóð s.s. í íþróttahúsi og sundlaug.
Nemendur hafa verið hvattir til þess að nýta sér nemendaaðstöðu skólans og unnið hefur verið að því að þeir fái tækifæri til þess að tengjast nemendum af öðrum brautum með þátttöku í almennum kennslustundum og fylgd í matsal nemenda.