Reglur fyrir stöðupróf í erlendum tungumálum

Hver getur tekið stöðupróf?

Stöðupróf í erlendum tungumálum eru fyrir þá sem dvalist hafa til lengri eða skemmri tíma erlendis við leik eða störf og telja sig hafa náð þannig árangri í tungumálanámi að þeir munu ekki hafa ávinning af kennslu í viðkomandi tungumáli á fyrstu tveimur þrepum framhaldsskólans. Hafi nemandi lokið grunnskólaprófi með einkunnina A stendur honum einnig til boða að taka stöðupróf. Nemandi ber sjálfur ábyrgð á því að afla sér upplýsinga um möguleika á því að þreyta stöðupróf.

Hvenær eru stöðuprófin haldin?

Stöðuprófin eru haldin í fyrstu kennsluviku á haustönn og vorönn. Nemendur þurfa að skrá sig rafrænt í prófið með mánaðar fyrirvara.

Hvað kostar að taka stöðupróf?

Gjald er tekið fyrir hvert próf sem þreytt er, en þó aldrei meira en því sem nemur gjaldi fyrir þrjú próf.

Niðurstaða stöðuprófa

Til þess að stöðupróf sé metið til eininga þarf niðurstaða prófdómara að vera sú að próftaki sýni, svo ekki sé um villst, að hann hafi gott vald á tungumálinu og öllum fjórum færniþáttum þess; lestri, ritun, hlustun og tali. Prófið er annars vegar skriflegt og hins vegar munnlegt.

Hversu margar einingar er hægt að fá metnar?

Að hámarki eru metnir tveir áfangar á öðru þrepi og í ensku þýðir það til dæmis ENSK2RF05 og í dönsku þýðir það til dæmis DANS2BB05 að hámarki. Metnir eru allt að fjórir áfangar í þriðja máli.

Hvenær og hvernig er úrlausn prófa veitt?

Niðurstaða prófanna skal liggja fyrir tveimur heilum vikum eftir prófdag. Hafi nemandi staðist stöðupróf er áfanginn skráður í INNU með einkunnina M.