Reglur um skólasókn

Frá haustönn 2022 er gerð breyting á skólasóknarreglum FB. Í stað þess að heildarmætingarhlutfall í alla áfanga nemanda sé ráðandi um hvort nemandinn stenst kröfur um mætingu á önn, er litið til raunmætingar í einstaka áfanga. Kennari áfanga ákveður sína mætingakröfu og skal hún koma fram í kennsluáætlun áfangans. Einkunn er þó enn gefin fyrir heildarskólasókn og fær nemandi sem er með að lágmarki 90% raunmætingu A í einkunn og eina einingu, en einkunnina S sé hann þar undir.

Til að fá niðurfellda fjarvistaskráningu vegna veikinda eða skammtímaleyfa (t.d. læknisheimsókna eða sálfræðitíma) þarf foreldri eða forráðamaður ólögráða nemanda að skrá veikindin/leyfið rafrænt í Innu, nemendabókhald skólans, fyrir kl. 12:00 samdægurs. Rafrænar tilkynningar frá foreldrum eða forráðamönnum teljast fullnægjandi og frekari staðfesting er óþörf. Nemendur 18 ára og eldri skrá sín veikindi/skammtímaleyfi í INNU.

Við ítrekuð veikindi getur skrifstofa skólans þó krafist þess að veikindi séu staðfest af lækni. Nemendum gefst einnig kostur á að skila læknisvottorði. Þau þurfa að berast innan viku frá lokum veikinda nema um annað sé samið.
Stjórnendur skólans geta heimilað að felldar séu niður fjarvistir að öllu leyti þegar nemendur hafa verið fjarverandi í sérstökum tilvikum.

Í samræmi við stjórnsýslulög og á grundvelli reglna um skólasókn er hægt að vísa nemendum úr einstökum áföngum eða úr skóla vegna lélegrar skólasóknar og skulu þeir þá áður hafa fengið skriflega viðvörun frá viðkomandi kennara, umsjónarkennara eða stjórnanda. Skal virða andmælarétt og gæta þess að forráðamönnum ólögráða nemenda sé gert viðvart skriflega. Endanleg brottvikning er á ábyrgð skólameistara.