Skólasóknarreglur

  1. Nemendur skulu sækja allar kennslustundir í þeim áföngum sem þeir hafa í stundaskrá sinni og koma stundvíslega til kennslu. Gerð er lágmarkskrafa um 85% heildarmætingu.
  2. Nemendur verða að mæta í a.m.k. 85% kennslustunda. Í einstökum áföngum eru þó strangari mætingareglur og eru þær tilgreindar í kennsluáætlunum. Hér er t.d. um að ræða ýmsa verklega áfanga og símatsáfanga.
  3. Nemandi, sem ekki hefur mætt í kennslustund, getur ekki farið fram á að fá kennslu í því efni sem búið er að fara yfir.
  4. Engin leyfi eru gefin vegna læknisheimsókna og þess háttar fjarveru.
  5. Nemandi sem er með yfir 95% raunmætingu fær A í skólasókn og eina einingu. Nemandi með 90%–94% heildarmætingu fær B í skólasókn. Nemandi með 85%– 89% heildarmætingu fær C í skólasókn. Ef nemandi fer niður fyrir 85% heildarmætingu er hann fallinn á önninni og fær einkunnina E í skólasókn. Ef nemandi sem fellur á önn hyggst halda áfram námi þarf hann að gera grein fyrir fjarvistum sínum og sækja um skólavist að nýju.

Til að fá niðurfellda fjarvistaskráningu vegna veikinda þarf foreldri eða forráðamaður ólögráða nemanda að skrá veikindin rafrænt í Innu, nemendabókhald skólans, fyrir kl 12:00 samdægurs. Rafrænar tilkynningar frá foreldrum eða forráðamönnum teljast fullnægjandi og frekari staðfesting er óþörf. Við ítrekuð veikindi getur skólameistari þó krafist þess að veikindi séu staðfest af lækni.

Lögráða nemendur sem búa í foreldrahúsum geta opnað aðgang foreldris eða forráðamanns að Innu, svo það geti skráð veikindaforföllin rafrænt, skoðað mætingar og einkunnir nemandans í áföngum. Sjá nánar hér: Veikindaskráning Aðgangurinn er þá opinn þangað til að nemandi lokar honum. Nemendum gefst einnig kostur á að skila læknisvottorði. Þau þurfa að berast innan viku frá lokum veikinda nema um annað sé samið. Stjórnendur skólans geta heimilað að felldar séu niður fjarvistir að öllu leyti þegar nemendur hafa verið fjarverandi í sérstökum tilvikum.

Í samræmi við stjórnsýslulög og á grundvelli reglna um skólasókn er hægt að vísa nemendum úr skóla vegna lélegrar skólasóknar og skulu þeir þá áður hafa fengið skriflega viðvörun frá viðkomandi kennara, umsjónarkennara eða stjórnanda. Skal virða andmælarétt og gæta þess að forráðamönnum ólögráða nemenda sé gert viðvart skriflega. Endanleg brottvikning er á ábyrgð skólameistara.

Meðferð ágreiningsmála og viðurlög

Við meðferð ágreiningsmála skal gæta ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000 og upplýsingalaga nr. 50/1996. Leitast skal við að afgreiða brot á skólareglum með skjótum hætti en jafnframt leggja áherslu á öryggi og vandvirkni við úrlausn mála og afgreiðslu.
Brjóti nemandi reglur skólans ber að veita honum tiltal, við alvarlegt brot veitir skólameistari skriflega áminningu og við ítrekað eða mjög gróft brot er nemanda vísað úr skóla.
Þegar nemandi brýtur skólareglur skal aðstoðarskólameistari skrá atburðinn, ræða við málsaðila og upplýsa jafnframt forráðamenn ólögráða nemenda um málið.
Aðstoðarskólameistari vísar eftir atvikum máli áfram til skólameistara. Skrifleg áminning skýrir frá tilefni, viðurlögum og andmælarétti nemanda.
Leitast skal við að leysa ágreiningsmál á vettvangi skóla. Uni nemandi eða forráðamaður hans ekki úrskurði í deilumáli má vísa málinu til mennta- og menningarmálaráðuneytis.