Innritun í FB

Allir sem hafa lokið námi í grunnskóla eða eru orðnir 16 ára eiga rétt á að innritast til náms í framhaldsskóla og stunda það til 18 ára aldurs, haldi þeir skólareglur. Við leggjum okkur fram um að mæta hverjum og einum nemanda og hjálpa honum til þess að ná árangri og ljúka námi sínu.

Inntökuskilyrði

Nemendur með A, B+, B, C+ og C á grunnskólaprófi geta innritast á allar námsbrautir skólans. Nemendum er raðað í námshópa samkvæmt námskrá viðkomandi námsbrautar. Almennt er miðað við að nemendur sem lokið hafa úr grunnskóla með einkunnina A, B+ og B í kjarnagreinunum íslensku, stærðfræði, ensku og dönsku séu tilbúnir að hefja nám á 2. þrepi í þeim greinum. Nemendur með einkunnina C+ og C raðast að jafnaði á 1. þrep. Við röðun á þrep áskilur skólinn sér rétt til að líta til einkunna nemandans í heild og leggja mat á hvort nemandinn raðist á 1. eða 2. þrep í grunnáföngum í kjarnagreinum.

Nemendur sem koma með mjög slakan undirbúning úr grunnskóla (einkunn D) hefja nám á framhaldsskólabraut. Framhaldsskólabraut veitir undirbúning undir nám á öðrum námsbrautum. Inn á framhaldsskólabraut eru einungis teknir nemendur úr Breiðholti.

Á starfsbraut (sérdeild skólans) eru einungis teknir 6-8 nemendur hvert haust. Sótt er um nám á starfsbraut í febrúar.

Umsóknir

Sótt er um nám í skólanum rafrænt, á slóðinni menntagatt.is. Opnað er fyrir umsóknir í byrjun maí fyrir haustönn og byrjun nóvember fyrir vorönn. Umsóknareyðublöð fyrir þá sem vilja sækja um afreksíþróttaáfanga í FB er hægt að nálgast hér. Nemendur þurfa að prenta eyðublaðið, fylla það út, fá undirritun þjálfara í sínu íþróttafélagi og skila því síðan inn á skrifstofu FB. Ekki er hægt að sækja um afreksáfangann rafrænt.

Innritunar- og efnisgjöld

Innritunar- og efnisgjöld eru ákveðin af skólameistara að höfðu samráði við skólanefnd. Innritunargjöld eru innheimt fyrir upphaf hverrar annar. Greiðsla þeirra er staðfesting á skólavist. Efnisgjöld fyrir verklega áfanga eru einnig innheimt í byrjun annar. Greiði nemandi ekki efnisgjald fær hann ekki einkunnablað sitt afhent fyrr en hann getur framvísað greiðslukvittun.