Gæðamál

Mat á skólastarfi

Kveðið er á um lögbundið innra og ytra eftirlit með gæðum skólastarfs í framhaldsskólum í 40.-42. grein framhaldsskólalaga. Tilgangur þess er að veita hagsmunaaðilum upplýsingar um árangur skólastarfsins, tryggja að starfsemi skólans sé í samræmi við opinber fyrirmæli og að nemendur fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á, svo og til þess að tryggja gæði náms og stuðla að umbótum.

Innra mat (sjálfsmat) er í höndum skólans. Því er stýrt af gæðaráði sem leitast við að virkja starfsfólk, nemendur, foreldra og aðra hagsmunaaðila í matsferlinu. Stefnt er að því að þróa heildstætt sjálfsmatskerfi fyrir skólann. Niðurstöður sjálfsmatsins eru birtar í sjálfsmatsskýrslu skólans sem send er til menntamálaráðuneytisins ár hvert, ásamt áætlunum um umbætur sem jafnframt eru birtar opinberlega á heimasíðu skólans.

Ytra mat er í höndum menntamálaráðuneytis sem gerir reglulega úttekt á hverjum framhaldsskóla og birtir niðurstöðurnar opinberlega. Síðasta úttekt á starfsemi FB var gerð árið 2016 og er úttektarskýrslan á heimasíðu skólans.

Rekstrarhandbók

Stefnt er að því að helstu viðfangsefni skólans séu skráð og skjalfest. Verkferlar, starfslýsingar, leibeiningar og gátlistar mynda rekstrarhandbók skólans sem enn er í vinnslu. Gerð rekstrarhandbókar er á ábyrgð skólameistara.