Erasmus+ verkefnið

„WATT in STEaM“

Erasmus+ samstarfsverkefnið „WATT in STEaM“ eða „Women as Teachers or Trainers in Science, Technology, Engineering and/Arts Mathematics“. er samstarfsverkefni FB og sjö landa en auk Íslands taka þátt Belgía, Finnland, Þýskaland, Holland, Ítalía og Portúgal. Verkefnið miðar að því að fjölga stúlkum í vísinda- og tæknigreinum. Vinnufundur er haldinn í hverju landi fyrir sig þar sem löndin kynna það helsta sem þau hafa gert til að stuðla að aukinni þátttöku kvenna í vísinda og tæknigreinum og hvað þau hafa gert til að stuðla að fjölgun kvenkynskennara í þessum greinum. Á síðasta fundi sem var haldinn í Portúgal fóru þrír starfsmenn frá FB. Þau Ágústa Unnur Gunnarsdóttir alþjóðafulltrúi, Elvar Jónsson skólameistari og Þóra Óskarsdóttir forstöðukona Fablabs Reykjavíkur. Þann 10.-11. febrúar 2020 verður alþjóðlegur vinnufundur landanna sjö haldinn í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti .

Erlent samstarf

Alþjóðleg samskipti auka víðsýni, efla skilning á mikilvægi tungumálakunnáttu og veita innsýn í líf og störf fólks í útlöndum. FB tekur þátt í fjölmörgum alþjóðlegum verkefnum, bæði Erasmus+ og Nordplus verkefnum. Á hverju ári fara nemendur og kennara til útlanda til að taka þátt í verkefnum, sækja námskeið eða taka þátt í nemendaskiptaverkefnum og starfsþjálfun tengda námi þeirra og störfum í FB. Skólinn sækir um náms og þjálfunarstyrki fyrir nemendur sína, nýútskrifaða nemendur og starfsfólk. Skólinn er í samstarfi við skóla í Danmörku, Belgíu, Eistlandi, Finnlandi, Svíþjóð  og Spáni.

Nám og þjálfun í útlöndum

Nemendum í list og verknámi gefst kostur á að taka hluta af starfsnámi sínu erlendis að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Starfsnám erlendis er metið að fulla. Lengd dvalar getur verið 4-12 vikur  fyrir nemendur en 2 dagar til 6 vikur fyrir starfsfólk.

Hér er hægt að sækja um

Alþjóðastefna og markmið

Stefna FB á sviði alþjóðamála er í megindráttum sú að veita nemendum tækifæri til að víkka út reynslu sína og gefa þeim kost á að stunda hluta af námi sínu erlendis. Við leggjum einnig áherslu á að kennarar og starfsfólk eigi kost á að heimsækja skóla, fyrirtæki og stofnanir elendis og kynnast þannig því sem er efst á döfinni í faggreinum, svo og aðferðum og áherslum í námi, kennslu og miðlun á hverjum stað. Gagnkvæmar heimsóknir stuðla að auknum gæðum námsins og auka starfsgleði meðal nemenda og starfsfólks. Því lítum við á erlent samstarf sem mikilvægan þátt í því að bjóða nemendum okkar nám í hæsta gæðaflokki.

Gæðavottun

Skólinn er með VET Mobility Charter vottun.  Með vottuninni viðurkennir Landskrif­stofa hæfni FB til að skipu­leggja og fram­kvæma góð náms- og þjálf­un­ar­verk­efni en gerð er krafa um mikil gæði verk­efna þeirra aðila sem fá vottun. Þá er mik­il­vægt að stofn­unin fram­fylgi stefnu­mótun sinni í alþjóðamálum en skólinn hefur birt alþjóðastefnu sína.

Stefna FB í alþjóðamálum á sviði starfsmenntunar.

Alþjóðafulltrúi

Ágústa Unnur Gunnarsdóttir kynningarstjóri er alþjóðafulltrúi skólans. Netfang hennar er agu@fb.is. Ágústa Unnur aðstoðar þá sem vilja sækja um að taka þátt í erlendu samstarfi.

Erasmus dagurinn 15. október

Evrópska starfsmenntavikan 2019

Þriðjudaginn 15. október verður haldinn sérstakur Erasmus dagur á pallinum við matsal nemenda kl. 12-13.  Þá geta nemendur kynnt sér þá möguleika sem eru í boði og fengið aðstoð við að sækja um Erasmus styrk til námsdvalar. Alþjóðafulltrúi skólans Ágústa Unnur Gunnarsdóttir ásamt Erasmus nemendum skólans sem hafa farið í starfsþjálfun verða til ráðgjafar.

Allan október halda verknámsnemar kynningar fyrir samnemendur sína og kennara og segja frá reynslu sinni af skiptinámi og starfsþjálfun í útlöndum. Þetta eru nemendur af snyrtibraut, fata- og textílbraut, sjúkraliðabraut, húsasmiðabraut og rafvirkjabraut.

Jón Ágúst húsasmiðanemi bloggar frá Helsinki

Jón Ágúst er húsasmiðanemi í FB og dvelur nú sem Erasmus+ skiptinemi 3 mánuði i í AAlto Fablab í Helsinki við nám og þjálfun.

Lesa bloggið

Erasmus+ nemendaskipti á snyrtibraut

Þær Gréta Jóhannsdóttir,  Magnea Óskarsdóttir og Sigrún Ólafsdóttir fóru í mánaðar starfsþjálfun til Helsinki í Finnlandi í sumar. Þær fá dvölina metna til fulls.

Hér má sjá glærukynningu og myndband frá þeim.