Öryggismál

Leitast er við að tryggja nemendum og starfsfólki öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi sem fullnægir kröfum um öryggi, hollustu og vinnuvernd. Fjögurra manna öryggisnefnd starfar samkvæmt lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46 frá 1980. Í nefndinni sitja tveir öryggisverðir skipaðir af skólameistara og tveir öryggistrúnaðarmenn kjörnir af starfsmönnum. Öryggisnefndin skipuleggur aðgerðir varðandi aðbúnað, hollustuhætti og öryggi, annast fræðslu til starfsfólks og hefur eftirlit með því, að ráðstafanir er varða aðbúnað, hollustuhætti og öryggi komi að tilætluðum notum. Hlutverk nefndarinnar er skilgreint nánar í reglugerð nr. 920 frá 2006. Starfsfólk og nemendur eru hvött til að koma með ábendingar til öryggisnefndar skólans og leggja þannig sitt af mörkum til aukins starfsöryggis og bætts aðbúnaðar.

Ef upp koma áföll í skólanum, svo sem slys, hættulegir sjúkdómar eða andlát, grípur áfallaráð inn í og fer með verkstjórn varðandi sálræna skyndihjálp. Sálræn skyndihjálp felst í því að kennarar og starfsfólk skóla leitast við að mynda tengsl sín í milli eða við nemendur með því að sýna samkennd án þess að vera ágeng eða uppáþrengjandi. Þannig er stuðlað að að líkamlegri og tilfinningalegri öryggiskennd í gegnum hughreystingu. Enn fremur þarf að róa þá sem eru í miklu tilfinningalegu uppnámi eða örvilnaðir og veita þeim uppörvun. Áfallaráð FB leitar leiða til að aðstoða aðila við að gera sér grein fyrir þörfum sínum og áhyggjum og afla viðeigandi upplýsinga. Áfallaáætlun FB er að finna á innra neti skólans (samskránni).