Foreldrar

Stuðningur foreldra hefur mikil áhrif á námsárangur og námsgengi nemenda. Þannig minnka líkur á brottfalli verulega ef foreldrar sýna námi barna sinna áhuga, veita þeim aðhald og hvatningu. Í þessum anda kveður 33. grein framhaldsskólalaga á um að skólastjórnendum, kennurum og forráðamönnum beri að vinna saman að því að skólaganga ungmenna verði farsæl.

Samstarf við foreldra og forráðamenn nemenda undir 18 ára aldri er í gegnum kynningarfundi, viðtöl og upplýsingagjöf. Fyrir upphaf skólagöngu eru foreldrar boðaðir í viðtöl með nemendum og aftur um miðja önn á hausti og vori. Foreldrar ólögráða nemenda geta sótt sér aðgang að Innunni, nemendabókhaldi skólans. Þar geta þeir séð stundaskrá, fjarvistir, einkunnir, verkefnaskil og námsferil barna sinna. Sé nemandi veikur, getur foreldri skráð veikindin beint í Innuna fyrir kl. 12 samdægurs.

Þegar nemandi nær sjálfræðisaldri er skólanum óheimilt að miðla upplýsingum til foreldra. Nemandinn þarf þá sjálfur að veita forráðamanni skriflegt umboð til þess að afla upplýsinga eða opna aðgang forráðamanns að Innunni, t.d. til veikindaskráninga.