Stefnumið

  • Við leggjum áherslu á frið, lýðræði, réttlæti, jöfnuð og jafnrétti
  • Við vinnum saman að góðum námsárangri allra nemenda

  • Við menntum nemendur til að stuðla að sjálfbærni og virða líf og umhverfi

  • Við stuðlum að vellíðan og valdeflingu nemenda og starfsfólks

  • Við leggjum áherslu á góða samvinnu, hvetjandi og nærandi samskipti

  • Við iðkum, kennum og hlúum að nýsköpun

  • Við ræktum góð tengsl út á við og vinnum með nærsamfélagi skólans

Kennslufræðileg stefna skólans

Kennslufræðileg stefna FB byggir á því að lögð er jöfn áhersla á bóknám, listnám og verknám og er námið sniðið að breiðum hópi nemenda. Grunngildin virðing, fjölbreytni og sköpunar­kraftur eru leiðarljós í námi og kennslu. Í skólanum er lögð áhersla á að nýta til fulls kosti áfangakerfisins og fjölbreytt námsframboð til þess að nemendur geti fundið sér nám við hæfi. Áfangakerfið eykur ábyrgð nemenda á eigin námi og námsvali. Ábyrgðin þroskar þá og gerir um leið hæfari til þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi nútímans.

Fjölbreytni í kennsluaðferðum er mikil í skólanum, sveigjanleiki í námi og námsframboði sömu­leiðis. Mjög öflugt stuðningskerfi við nemendur er í skólanum og það er hluti af kennslu­fræðilegri hugmyndafræði, því skólinn er tækifæri fyrir alla. Kappkostað er að nýta tæknina í samræmi við námsmarkmið á hverjum tíma til að undirbúa nemendur sem best undir það sem við tekur að námi loknu. Kennarar eru hvattir til þess að vinna þróunarstarf hver á sínu sviði og sækjast eftir endurmenntun til að auka nýbreytni og faglegan metnað. Kennarar í hverri deild útfæra kennslufræðilega stefnu deildarinnar í samræmi við sérstöðu viðkomandi náms­greina.

Á öllum námsbrautum í FB er lögð áhersla á að nemendur nái tökum á lykilhæfniþáttum aðal­námskrár, en þeir eru: námshæfni, heilbrigði, skapandi hugsun og hagnýting þekkingar, jafn­rétti, lýðræði og mannréttindi, menntun til sjálfbærni, læsi, tjáning og samskipti á íslensku og erlendum málum, svo og læsi, tjáning og samskipti um tölur og upplýsingar.