Virðing, vellíðan, velferð

FB er heilsueflandi framhaldsskóli og hefur sett sér eftirfarandi stefnu um heilsueflingu og forvarnir:

Við viljum að nemendur okkar hafi sterka sjálfsmynd, beri ábyrgð á eigin heilsu, forðist að nota áfengi, tóbak eða vímuefni, hugi að næringu, hreyfingu og svefni, hafi heilbrigða sýn á sig sem kynverur og gæti að gagnkvæmri virðingu í samskiptum við annað fólk.

Til að auka vellíðan nemenda höfum við ákveðið að…

  • Byrja kennslu kl. 8:30 á morgnana
  • Bjóða hollt fæði í mötuneyti og hafragraut á morgnana

  • Leggja áherslu á hreyfingu með hléæfingum og fjölbreyttum íþróttum
  • Stunda hugrækt, með öndun, slökun og hugleiðslu
  • Veita námsstuðning eftir þörfum
  • Hafa greiðan aðgang að náms- og starfsráðgjöf
  • Aðstoða nemendur við námsval
  • Ráða umsjónarkennara og fóstra
  • Bjóða HAM-námskeið
  • Bjóða „Mindfulness“-námskeið
  • Veita sálfræðiþjónustu í samvinnu við Þjónustumiðstöð Breiðholts

Nemendur og starfsfólk bera ábyrgð á því að rækta góðan skólabrag. Með því að sýna hvert öðru virðingu aukum við jafnrétti og vinsemd í samfélaginu. Og með því að veita hvert öðru stuðning, hrós, tíma og athygli getum við átt þátt í því að gera góðan skóla enn betri. Siðareglur kennara gilda, eftir því sem við á, fyrir allt starfsfólk, en þar segir:

Kennarinn…

  • menntar nemendur.

  • eflir með nemendum gagnrýna hugsun, virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, umhverfi og menningu.
  • sýnir nemendum virðingu, áhuga og umhyggju.
  • skapar góðan starfsanda og hvetjandi námsumhverfi.
  • hefur jafnrétti að leiðarljósi.
  • vinnur gegn fordómum, einelti og öðru ranglæti sem nemendur verða fyrir.
  • kemur vel fram við nemendur og forráðamenn og virðir rétt þeirra.
  • gætir trúnaðar við nemendur og forráðamenn og þagmælsku um einkamál þeirra sem hann fær vitneskju um í starfi sínu.
  • viðheldur starfshæfni sinni og eykur hana.
  • vinnur með samstarfsfólki á faglegan hátt.
  • sýnir öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu.
  • gætir heiðurs og hagsmuna stéttar sinnar.

Starfsmenn skólans gæta varfærni í notkun samfélagsmiðla. Þeir þurfa þar að huga að mörkum einkalífs og vinnu og gæta þess að samskipti við nemendur séu eðlileg og fagleg. Mikilvægt er að starfsfólk og nemendur tjái sig af sanngirni um skólann í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.