Skipurit skólans

Fjölbrautaskólinn í Breiðholti er rekinn af íslenska ríkinu og starfar samkvæmt lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008 undir yfirstjórn menntamálaráðherra. Skólameistari veitir skólanum forstöðu, stjórnar daglegum rekstri, gætir þess að skólastarfið sé í samræmi við opinber fyrirmæli og hefur frumkvæði að stefnumörkun og umbótastarfi. Aðstoðarskólameistari er staðgengill skólameistara.

Skólanefnd

Ráðherra skipar skólanefnd við framhaldsskóla til fjögurra ára í senn. Í skólanefnd skulu sitja fimm einstaklingar. Tveir eru skipaðir samkvæmt tilnefningum sveitarstjórna og þrír án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Nefndin kýs sér formann til eins árs í senn. Áheyrnarfulltrúar eru þrír með málfrelsi og tillögurétt; einn tilnefndur af kennarafundi, einn af nemendafélagi skólans og einn af foreldraráði, til eins árs í senn.

Skólaráð

Skólaráð skal vera skólameistara til samráðs og aðstoðar. Skólameistari er oddviti skólaráðs sem auk hans skal skipað staðgengli hans, áfangastjóra og fulltrúum kennara og nemenda. Skólaráð fundar vikulega og er mikilvægur vettvangur samræðu milli forsvarsmanna nemendafélagsins og yfirstjórnar skólans.

Gæðaráð

Gæðaráð heldur utan um aðgerðaáætlun um sjálfsmat og fylgist með framkvæmd matsins. Í gæðaráði sitja skólameistari, aðstoðarskólameistari, fulltrúi kennara, gæðastjóri og ritari gæðaráðs.

Stjórnendur

Stjórnendur í fullu starfi eru, auk skólameistara og aðstoðarskólameistara, áfangastjóri, sem heldur utan um námsferla og námsástundun, innritun og útskriftir allra nemenda skólans. Fjármálastjóri sem heldur utan um fjármál skólans, starfsmannamál og rekstrarleg málefni og kennslustjóri sem heldur utan um skólaþróun og kennir einn námsáfanga. Fagstjórar námsbrauta eru ráðnir til tveggja ára í senn. Þeir leiða faglegt samstarf kennara, vaka yfir skipulagi á námi og kennslu á viðkomandi námsbrautum og halda utan um rekstrarleg málefni. Forstöðumaður nemendaþjónustu leiðir faglegt samstarf sérfræðinga á sviði nemendaþjónustu. Forstöðukona Fab Lab Reykjavíkur stýrir rekstri smiðjunnar. Kynningar- og alþjóðafulltrúi heldur utan um kynningar og ytri ásýnd skólans og stýrir alþjóðlegu samstarfi. Stjórnendafundir eru haldnir vikulega til að ræða málefni skólans. Fundargerðir stjórnendafunda eru geymdar á innra neti skólans og eru birtar á TEAMS svæði starfsfólks skólans.

Störf og leiðtogun í dreifstýrðri stofnun

Kennarar skólans og aðrir sérfræðingar á sviði kennslumála skipast undir leiðtogun fagstjóra námsbrauta og forstöðufólks deilda eftir sérhæfingu sinni. Þannig heyra kennarar í íslensku, ensku, stærðfræði, náttúrufræði, tungumálum, félagsgreinum, tölvu- og upplýsingatækni og íþróttum undir fagstjórn bóknámsbrauta. Undir fagstjórn listnámsbrauta heyra kennarar í myndlistar- og textílgreinum, en einnig í valgreinunum tónlist, leiklist og dansi. Auk þess eru sérstakir fagstjórar fyrir starfi kennara á húsasmiðabraut, rafvirkjabraut, sjúkraliðabraut, snyrtibraut og starfsbraut. Undir forstöðu nemendaþjónustu heyra námsráðgjöf, námsstuðningur við nemendur, bókasafn og upplýsingatækniþjónusta, en einnig skipulag á umsjón/fóstrun ólögráða nemenda og verkefnið heilsueflandi framhaldsskóli. Sérfræðingar í FabLab Reykjavík heyra undir forstöðukonu smiðjunnar.

Kennarar FB eru sérfræðingar í þeim greinum sem þeir kenna. Við skólann starfa ríflega hundrað kennarar í fullu starfi og nokkrir í hlutastarfi. Náms- og starfsráðgjafar eru einnig kennaramenntaðir, svo og sérfræðingur á vinnustofu nemenda sem heldur utan um námsstuðningsþjónustu skólans á bókasafni, en þar starfar einnig bókasafnsfræðingur skólans og kerfisstjóri er veitir nemendum og starfsfólki stuðning í upplýsingatæknimálum. Skólinn greiðir sjúkraliðum á stofnunum sem taka við sjúkraliðanemum laun fyrir þá þjónustu.

Á fjármálasviði starfa sérfræðingar á sviði fjármála og starfsmannamála, svo og kynningarstjóri sem jafnframt er verkefnastjóri erlendra samskipta. Þar starfa einnig kerfisstjóri, fulltrúar á skrifstofu, umsjónarmaður fasteigna, matráðar og skólaliðar. Rekstur nemendamötuneytisins er í höndum verktaka.
Skólinn heldur utan um rekstur á FabLab Reykjavík í nánu samstarfi við Reykjavíkurborg og ráðuneyti atvinnu- og nýsköpunarmála.