Skipurit og stjórnskipan

Fjölbrautaskólinn í Breiðholti er rekinn af íslenska ríkinu og starfar samkvæmt lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008 undir yfirstjórn menntamálaráðherra. Skólameistari veitir skólanum forstöðu, stjórnar daglegum rekstri, gætir þess að skólastarfið sé í samræmi við opinber fyrirmæli og hefur frumkvæði að stefnumörkun og umbótastarfi. Aðstoðarskólameistari er staðgengill skólameistara.

skipurit-h16-1

Stjórnendur í fullu starfi eru, auk skólameistara og aðstoðarskólameistara, áfangastjóri, sem heldur utan um námsferla og námsástundun, innritun og útskriftir allra nemenda skólans, hvort heldur er í dagskóla, kvöldskóla eða sumarskóla. Fjármálastjóri heldur utan um fjármál skólans, starfsmannamál, rekstur og kynningarmál. Sviðsstjórar eru ráðnir til tveggja ára í senn, sviðsstjóri bóknáms og sviðsstjóri listnáms halda utan um skipulag á námi og kennslu á viðkomandi sviði og sviðsstjóri verknáms fer fremstur meðal fjögurra fagstjóra verknáms í skólanum. Sviðsstjóri nemendaþjónustu er jafnframt sérfræðingur á sviði nemendaþjónustu.

Stjórnendafundir eru haldnir vikulega til að ræða málefni skólans. Fundargerðir stjórnendafunda eru geymdar á innra neti skólans og liggja frammi til skoðunar í matstofu starfsfólks.

Ráðherra skipar skólanefnd við framhaldsskóla til fjögurra ára í senn. Í skólanefnd skulu sitja fimm einstaklingar. Tveir eru skipaðir samkvæmt tilnefningum sveitarstjórna og þrír án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Nefndin kýs sér formann til eins árs í senn. Áheyrnarfulltrúar eru þrír með málfrelsi og tillögurétt, einn tilnefndur af kennarafundi, einn af nemendafélagi skólans og einn af foreldraráði, til eins árs í senn.

Skólaráð skal vera skólameistara til samráðs og aðstoðar. Skólameistari er oddviti skólaráðs sem auk hans skal skipað staðgengli hans, áfangastjóra og fulltrúum kennara og nemenda. Skólaráð fundar vikulega og er mikilvægur vettvangur samræðu um málefni skólans.

Gæðaráð heldur utan um aðgerðaáætlun um sjálfsmat og fylgist með framkvæmd matsins. Í gæðaráði sitja skólameistari, aðstoðarskólameistari og fulltrúar kennara og starfsfólks.

Til viðbótar við þá formlegu stjórnskipan sem skipurit og stjórnendahlutverk tilgreina, gera lög um framhaldsskóla ráð fyrir lýðræðislegri þátttöku í stefnumótun og ákvörðunum í skólastarfinu í gegnum kennarafundi og skólafundi, auk þess sem foreldraráð er vettvangur fyrir foreldra til þess að tengjast skólastarfinu.