Starfsmannamál

Starfsmannastjórnun í FB tekur mið af mannauðsstefnu skólans, en hún byggir m.a. á fyrirmælum laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, kjarasamningum, stofnanasamningum og starfslýsingum skólans. Mannauðsstefnan gengur út frá því að skólinn hafi yfir að ráða öflugu starfsfólki, sem nýtur hæfileika sinna og menntunar, hefur tækifæri til að samræma vinnu og einkalíf og leggur sitt af mörkum til að gera stofnunina að lifandi lærdómssamfélagi. Í mannauðsstefnunni er fjallað um ráðningar, móttöku nýrra starfsmanna, starfsþróun og starfsmannasamtöl, starfslok, laun, vinnutíma og starfsskilyrði, heilsueflingu, jafnrétti og samskipti, svo og stjórnunarhætti.

Áhersla er lögð á lýðræðislega og sanngjarna stjórnunarhætti, þar sem kappkostað er að veita starfsmönnum og eftir atvikum nemendum, virka hlutdeild í stjórnun skólans og ákvörðunum. Stjórnendur skólans bera ábyrgð á að upplýsingaflæði sé gott, boðleiðir skýrar og að afgreiðsla mála fari í réttan farveg. Þeir komast að niðurstöðu um álitamál og aðstoða við lausn ágreiningsmála þar sem leitast er við að gæta sanngirni gagnvart báðum aðilum.