Húsnæði og aðbúnaður

Skólastarfið fer fram í þremur byggingum. Við Austurberg 5 stendur aðalskólahúsið og þar er kennsla í bóknámi, listnámi og verknámi. Við Hraunberg 6 stendur verknámshús þar sem fer fram verkleg kennsla í trésmíði og myndlist. Við Austurberg 3 stendur íþróttahúsið sem þjónar nemendum Fjölbrautaskólans í Breiðholti og Hólabrekkuskóla. Í húsinu er löglegur handboltavöllur, fjórir körfuboltavellir, átta badmintonvellir, fjórir blakvellir og einn tennisvöllur.

FB rekur innan sinna veggja FabLab-smiðju í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Reykjavíkurborg. Þar gefst nemendum og almenningi kostur á að útbúa frumgerðir af hlutum sem þeir hafa teiknað og raungera þannig hugmyndir sínar með hjálp stafræns tækjabúnaðar eins og þrívíddarprentara, laserskera, fræsara og tölvuteikniforrita. Sífellt fleiri kennarar í FB nýta aðstöðuna í FabLab til að dýpka og víkka nám nemenda.

Í skólanum er þráðlaust net sem bæði kennarar og nemendur hafa aðgang að. Í skólanum eru fimm tölvustofur og nokkrir tölvuvagnar auk tölva á bókasafni. Ekki er gerð krafa um að nemendur hafi eigin tölvur í skólanum. Allar upplýsingar um námsferil nemenda eru skráðar í Innu. Nemendur geta sótt lykilorð að Innunni gegnum tölvupóst. Námsstjórnarkerfið Moodle sem finna má á fb.dreifnam.is er notað í skólanum. Þar má finna gögn sem kennarar telja nauðsynleg nemendum, m.a. verkefni, glósur og gagnvirk próf. Skólinn er áskrifandi að Office 365 og geta nemendur hlaðið þeim forritum niður á tölvur sínar.Á heimasíðu eru upplýsingar um hvernig nálgast má lykilorð að Innu og dreifnámi (Moodle) og hvernig hlaða má niður Office pakkann. Á bókasafni geta nemendur sótt lykilorð í tölvukerfi skólans og fengið að prenta út gögn.

Mötuneyti fyrir nemendur og kennara eru rekin í skólanum. Matsalur nemenda er í nýbyggingu skólans en starfsfólks á kennarastofu. Skólinn leggur áherslu á notalegan aðbúnað í matsölum og að í boði sé hollt fæði á hagstæðu verði. Þá býður skólinn nemendum sínum hafragraut fjóra morgna í viku. Á heimasíðu má finna matseðla vikunnar í mötuneyti nemenda.

Kappkostað er að hlúa eins vel að nemendum og starfsfólki og frekast er unnt innan ramma þess fjármagns sem skólanum er úthlutað. Viðhald og endurnýjun á húsnæði skólans er í höndum Fasteigna ríkissjóðs í samráði við stjórnendur. Tækjabúnaður skólans er í stöðugri uppfærslu, en verknámskennsla kallar á góðan tækjabúnað. Húsbúnaður er kominn til ára sinna og reynt að endurnýja hann eftir því sem kostur er á. Lögð er áhersla á gott viðhald á eignum og búnaði, góða umgengni og snyrtileika í rýmum skólans.