Félagslíf nemenda

Nemendafélag skólans, NFB, vinnur að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda. Stjórn NFB (nemendaráð) er skipuð formanni, varaformanni, markaðsstjóra, skemmtanastjóra og meðstjórnanda. Þeir fimm sjá um daglegan rekstur félagsins og hafa yfirumsjón með öllu sem gerist á þess vegum. Kosið er í nemendaráð og nefndir í apríl hvert ár en nýir fulltrúar í nemendaráði og nefndum taka við störfum í byrjun skólaárs.

Nemendafélagið fer með rödd nemenda gagnvart skólastjórnendum. Formaður og varaformaður sitja í skólaráði og formaður er áheyrnarfulltrúi í skólanefnd. Nýnemaferð, forvarnadagur og skólafundur eru viðburðir sem skólayfirvöld og nemendafélagið undirbúa saman.

Nemendafélagið heldur uppi fjölbreyttu félagslífi og freistar þess að virkja sem flesta nemendur. Innan félagsins eru starfræktar 11 nefndir: Auglýsinganefnd, Árshátíðarnefnd, Íþróttanefnd, Listanefnd, Ljósmyndanefnd, Vefráð og Vídeónefnd auk Leiklistarfélagsins Aristófanesar og Málfundafélagsins Gróu, en tvö síðastnefndu félögin hafa ekki verið virk undanfarið ár vegna lítillar þátttöku.

Öldunganefnd er skipuð nemendum sem voru í stjórn NFB eða formenn nefnda árið áður. Þeim er ætlað að miðla upplýsingum og aðstoða nýja stjórn og nefndir við alla viðburði. Gæðanefnd er ætlað að vera milliliður milli kennara og nemenda og miðla upplýsingum um það sem vel er gert í skólanum og í kennslu og einnig það sem betur mætti fara að mati nemenda.

NFB heldur marga viðburði fyrir nemendur. Þar má t.d. nefna nýnemakvöld, böll, kvikmyndakvöld, íþróttakeppni, söngvakeppni, „paintball“-mót, tónleika, spilakvöld og mót í raunveruleikaleikjum svo að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Árlega tekur NFB þátt í Morfís, Söngvakeppni framhaldsskóla, Gettu betur og öðrum sameiginlegum keppnum framhaldsskólanna. Í mars hvert ár halda nemendur árshátíð og í tengslum við hana hefur yfirleitt verið sett upp leiksýning. Skólareglur gilda á öllum viðburðum sem haldnir eru í nafni skólans. Um dansleikjahald gilda sérstakar reglur.