Námsmat og einkunnir

Námsmati er ætlað að meta hvernig nemanda hefur gengið að tileinka sér námsmarkmið í áfanga. Í kennsluáætlun hvers áfanga kemur fram hvernig námsmati er háttað. Það skal kynnt nemendum í upphafi annar. Námsmat er í höndum kennara.

Einkunnir eru gefnar í heilum tölum frá 1 til 10. Einkunnin 10 vísar til þess að 95–100% markmiða hafi verið náð og 5 til þess að 45–54% markmiða hafi verið náð. Lágmarkseinkunn í áfanga er 5. Nemandi telst ekki hafa staðist áfanga þegar einkunn er lægri og fær því ekki að taka næsta áfanga á eftir.

Nemanda er heimilt að útskrifast með einkunnina 4 (D) ef um lokaáfanga eða stakan áfanga er að ræða. Ekki er heimilt að hafa fleiri en tvær slíkar einkunnir á lokaprófsskírteini. Þessir áfangar gefa ekki einingar og verður nemandi því að afla annarra eininga í stað þeirra.

Ef fall í einum áfanga á lokaönn kemur í veg fyrir að nemandi geti útskrifast má hann endurtaka próf í þeim áfanga. Nemandinn öðlast ekki þennan rétt fyrr en ljóst er að hann hafi náð fullnægjandi árangri í öðrum áföngum á lokaönn. Nemendur eiga ekki rétt á endurtektarprófi í símatsáföngum ef í áfangalýsingu eða kennsluáætlun, sem nemendur fá í upphafi annar, er skýrt tekið fram að námsmatið byggist á símati sem nemendur verði að standast.

Prófahald og einkunnaskráning

Kennarar í dagskólanum skrá jafnóðum einkunnir fyrir verkefnaskil og hlutapróf í Innuna og geta nemendur og forráðamenn þannig fylgst með því hvernig nemandanum gengur í náminu yfir önnina.

Í lok námsannar fer fram hefðbundið prófahald í sumum áföngum. Þá er kennsla felld niður í skólanum og nemendur nýta tímann til prófaundirbúnings og próftöku. Próftafla er gefin út a.m.k. fjórum vikum fyrir annarpróf. Nemandi, sem þarf að þreyta þrjú próf sama daginn eða tvö próf á sama tíma, getur skráð sig í aukapróf án endurgjalds á skrifstofu skólans. Þeir sem veikjast í prófum geta tekið próf á aukaprófsdegi gegn framvísun læknisvottorðs. Þeim ber að tilkynna veikindin samdægurs eða næsta virkan dag eftir viðkomandi próf og eru þeir þá skráðir í aukapróf. Þeir sem óska eftir að flytja próf yfir á aukaprófsdag án veikinda mega skrá sig í aukapróf á skrifstofu skólans fyrir ákveðinn, auglýstan dag gegn gjaldi.

Um framkvæmd prófa gilda nákvæmar formlegar prófreglur sem allir hlutaðeigandi skulu fylgja. Prófreglur taka til próftíma, viðveruskráningar og staðfestingar á réttmæti próftaka til próftökunnar, gagna sem afhent eru nemendum, hvað nemendum er heimilt að taka með sér í prófin, réttar nemanda til lengri próftíma og viðurlaga við brotum á prófreglum. Nemendum ber að kynna sér prófreglurnar sem eru á heimasíðu skólans.

Nemendur sem eiga við fötlun og/eða sértæka námsörðugleika að stríða eiga eftir aðstæðum rétt á sérstakri aðstoð við nám, próf og annað námsmat. Náms- og starfsráðgjafar, að fenginni umsögn sérfræðinga, leggja mat á möguleika og leiðir skólans til þess að mæta þörfum hlutaðeigandi nemenda.

Birting einkunna og prófsýning

Nemendur og forráðamenn ólögráða nemenda fá aðgang að lokaeinkunnum í áföngum á afhendingardegi einkunna, með opnun Innunnar. Lögum samkvæmt á nemandi rétt á útskýringum á mati sem liggur að baki lokaeinkunn innan fimm virkra daga frá birtingu einkunnar. Prófsýning er haldin í FB fljótlega eftir að einkunnir eru afhentar, þá eiga nemendur þess kost að skoða prófúrlausnir sínar í viðurvist kennarans. Ef fram kemur skekkja í mati eða einkunnagjöf skal slíkt leiðrétt.

Ef nemandi telur einkunnagjöf kennara ósanngjarna á hann rétt á að vísa málinu til skólameistara og óska eftir mati sérstaks prófdómara. Þá skal kveða til óvilhallan prófdómara sem metur prófúrlausnir. Úrskurður prófdómara er endanlegur og verður ekki skotið til æðra stjórnvalds.