Mat á fyrra námi

Við skólann starfar matsnefnd sem metur nám úr öðrum skólum til eininga eftir frumgögnum viðkomandi skóla og er það fellt að námskerfi FB eftir því sem kostur er. Nám úr öðrum skólum er metið þannig að einkunn helst óbreytt eða er námunduð að næstu heilu tölu. Matshæft telst nám að loknu grunnskólaprófi sem hefur skilgreind markmið og lýkur með námsmati og fullnægjandi árangri. Þar er um að ræða allt viðurkennt nám á framhaldsskólastigi, nám sem veitir starfsréttindi, viðurkennd námskeið og hliðstætt nám erlendis.

Metnir áfangar færast inn á námsferil nemandans og koma fram á einkunnablaði í lok hverrar annar. Skólinn innheimtir gjald fyrir mat á námi úr öðrum skólum bæði í dagskóla og kvöldskóla.
Í sumum tilvikum gerir skólinn nemendum kleift að sanna þekkingu sína í tiltekinni grein eða á tilteknu sviði með stöðuprófi og þannig stytta nám sitt til lokaprófs.

Raunfærnimat staðfestir og metur raunverulega færni í skilgreindum verkum eða námsefni án tillits til þess hvernig eða hvar færninni var náð. Um framkvæmd raunfærnimats er nánar fjallað í reglugerð um framhaldsfræðslu nr. 1163/2011. Náms- og starfsráðgjafar FB veita nánari upplýsingar um raunfærnimat.