Eins og kunnugt er hafa almannavarnir lýst yfir neyðarstigi vegna COVID-19 veirunnar. Skólinn hafði þegar gripið til aðgerða sem í raun tilheyra neyðarstigi og ber þar fyrst að nefna bann við ferðum starfsmanna og nemenda á vegum skólans til útlanda ótímabundið. Einnig var búið að ráða auka starfsmann í þrif til að leggja áherslu á að þrífa sérstaklega þau svæði sem almannavarnir og sóttvarnalæknir leggja áherslu á að verði þrifin.

Til viðbótar við þetta hefur nú verið ákveðið að fresta opna húsinu sem átti að verða 17. mars. Allt félagslíf nemenda verður skoðað sérstaklega og tekið fyrir í skólaráði í dag.

Aðstoð við val nemenda verður ekki í opnu rými á bókasafni heldur á skrifstofum þeirra sem aðstoða við valið.

Allar tilkynningar um sóttkví eða einangrun nemenda og starfsfólks þurfa að berast á skrifstofu skólans, 570 5600 eða fb@fb.is. Þær  verða síðan skoðaðar sem einstök tilfelli undir stjórn aðstoðarskólameistara.

Það er gríðarlega mikilvægt við þessar óvenjulegu aðstæður að við stöndum öll saman í skólasamfélaginu. Nú skiptir meginmáli að við tökum á málum út frá ráðleggingum almannavarna og heilbrigðis- og menntayfirvalda og mikilvægt að við höldum ró okkar og yfirvegun og styðjum hvert annað.

Stefna skólans er sú að koma til móts við alla nemendur eins og frekast er kostur í þessu óvenjulega ástandi sem nú ríkir. Þetta byggir á því í raun og veru að hvert tilfelli er einstakt því nemendur eru í mjög mismunandi námi og eru á mismunandi vegi staddir í sínu námi.