Eins og þið vitið þurfum við að breyta skólastarfi í FB í samræmi við sóttvarnarreglur, vegna Covid-19. Lögð er áhersla á að skólinn sinni menntun nemenda þannig að starfsumhverfi nemenda og starfsfólks sé eins öruggt og vera má.
Saman höfum við það verkefni að halda úti góðu skólastarfi. Því vil ég biðja nemendur að lesa vel þau tilmæli sem hér eru sett fram um sóttvarnir. Einnig skulu þeir gæta þess að fylgja fyrirmælum kennara og starfsfólks um sóttvarnir.
Grunnurinn að sóttvörnum í skólanum er:
• að viðhafa gott hreinlæti og sóttvarnir
• að takmarka smitleiðir og
• að veikir nemendur og starfsmenn komi ekki í skólann.
Sérstakar ábendingar er varða nám og skólastarf:
• Kennarar skipuleggja kennsluna þannig að sem mest af henni geti verið fjarkennsla. Þeir nemendahópar sem koma inn í skólann a.m.k. fyrst verða verknáms- og listnámshópar, starfsbraut og svo nýnemar þar sem því verður við komið og aðrir hópar sem þurfa meiri námsstuðning. Það sama á við um kvöldskólann hvað þetta varðar – bóklegt nám sem allra mest í fjarnámi og helst alveg til að byrja með.
• Lögð verður áhersla á að hver tími sem kenndur er í fjarnámi hefjist á INNU, þar koma skilaboð um það sem nemandinn á að gera, í hvaða kerfi á að vinna, hvaða verkefni á að vinna eða hvar fjarkennslutíminn verður haldinn.
• Brýnt er að nemendur/forráðarmenn fylgist mjög vel með öllum tilkynningum og upplýsingum frá skólanum. Skoðið tölvupóst mjög reglulega.
• Nemendur eru hvattir til að ræða mál sín og hugsanlegar áhyggjur við umsjónarkennara, náms- og starfsráðgjafa, skólasálfræðing eða aðra innan skólans sem þeir treysta. Upplýsingar um starfsfólk FB eru á heimasíðu skólans.
• Foreldrum er einnig velkomið að hafa samband við umsjónarkennara, sérfræðinga í nemendaþjónustu eða aðra starfsmenn skólans. Þó eru þeir vinsamlegast beðnir að koma ekki í skólahúsnæðið nema brýna nauðsyn beri til.
• Það er eðlilegt að vera óöruggur í upphafi annar og við þessar aðstæður sem veirufaraldurinn skapar. Það tekur okkur öll tíma að aðlagast. Verum þolinmóð og munum að við getum sjálf ráðið viðbrögðum okkar, einnig í erfiðum aðstæðum.
• Ræktum vinasambönd. Húmor og jákvæðni hjálpa mikið.
Mötuneyti nemenda verður lokað fyrst um sinn. Nemendum er heimilt að borða nesti í stofum í frímínútum. Muna þarf að ganga vel frá öllu eftir sig.
Bókasafnið og námsver verða opin og verður takmarkaður fjöldi þar á hverjum tíma og sæti/vinnuaðstaða miðuð við 1 metra regluna. Það sama gildir um námsrými í matsal nemenda á 1. hæð. Hópamyndun í þessum rýmum er bönnuð eins og í öðrum almennum rýmum skólans.
Íþróttakennsla verður mikið utan dyra til að byrja með. Sturtur og búningsklefar eru lokaðir. Nánari upplýsingar koma frá íþróttkennurum.
Hlutverk nemenda í sóttvörnum:
• Að þvo sér oft um hendur með sápu og vatni í a.m.k. 20 sekúndur. Þetta er mikilvægasta forvörnin. Þvoið hendur áður en þið komið í skólann, í skólanum og áður en þið farið úr skólanum. Forðist að snerta andlitið!
• Ef ekki er aðstaða til handþvottar þá að nota handspritt sem er víða um skólann. Nemendur geta jafnframt notað eigin handspritt í litlum umbúðum ef þeir óska þess.
• Að hjálpa til við að sótthreinsa kennslustofur á milli námshópa. Nemendur fari eftir þeim fyrirmælum sem sett eru um sóttvarnir og þátttöku þeirra í sótthreinsun. Kennari stýrir sóttvörnum í kennslustundum og nemendum ber að hlýða kennara sínum.
• Að virða nándarmörk. Í kennslu í framhaldsskólum er heimilt að nota einn metra í samskiptum. Við notum tveggja metra regluna eins og hægt er og notum eins metra fjarlægð á milli kennara og nemenda einungis þegar þess þarf. Það sama á við um fjarlægð milli nemenda – best að halda tveimur metrunum.
• Í einhverjum tilfellum þurfa nemendur og starfsmenn að nota grímu sem hylur nef og munn í kennslustundum. Í þeim tilvikum fá nemendur grímur í skólanum. Alla jafna er ekki gerð krafa um grímu og hanska í skólastarfi, en þeim sem vilja nota slíkan búnað og koma sjálfir með hann er það að sjálfsögðu heimilt. Þeir sem nota grímu og/eða hanska þurfa að kynna sér rétta notkun á þessum hlutum og farga þeim á viðeigandi hátt í almennt rusl.
• Minnt skal á að grímur og hanskar koma aldrei í staðinn fyrir handþvott, sprittun og nándarmörk.
Nemandi sem er veikur eða hefur grun um að hann sé smitaður, kemur alls ekki í skólann nema eftir að hafa haft samband við heilsugæsluna.
• Helstu einkenni einkenni COVID-19 sýkingar minna á venjulega flensu: hiti, hósti, bein- og vöðvaverkir og þreyta. Einkenni frá meltingarfærum (kviðverkir, ógleði/uppköst, niðurgangur) eru ekki mjög áberandi með COVID-19 en eru þó þekkt. Breytingu, eða tapi á bragð- og lyktarskyni er lýst hjá 20–30% sjúklinga.
• Sýni nemandi einkenni á skólatíma er hann tafarlaust sendur heim. Haft verður samband við forráðamenn nemenda yngri en 18 ára. Nemandi með einkenni verður að setja upp grímu og hanska á meðan beðið er eftir því að hann verði sóttur. Mikilvægt er að nemandi með kvefeinkenni fari eftir fyrirmælum sem hann fær frá starfsfólki skólans.
• Nemandi sem greinist með Covid-19 skal tafarlaust tilkynna það til skólameistara. Smitrakning og fyrirmæli um einangrun eða sóttkví koma frá smitrakningateymi Almannavarna, engum öðrum.
• Nemandi sem hefur farið í Covid-19 sýnatöku kemur ekki í skólann fyrr en hann hefur fengið niðurstöðu úr sýnatökunni.
• Nemendur í sóttkví mega alls ekki koma í skólann fyrr en að lokinni sóttkví.
• Nemendur eru almennt hvattir til að hitta aðeins nánustu vini utan skólans og forðast fjölmenni með fólki sem það umgengst lítið eða ekkert.
Skólinn biður alla nemendur og starfsmenn um að vera með C-19 rakninga-appið uppsett og kveikt á því í símum sínum, utan sem innan skólans.
Þurfi nemendur að vera í einangrun eða í sóttkví verður unnið að því að finna lausnir varðandi þátttöku í námi. Það verður gert í samstarfi við stjórnendur, viðeigandi kennara og nemendur/forráðamenn.
Athugið að breytingar á skólastarfi geta orðið fyrirvaralaust komi upp smit eða vegna fyrirmæla frá Almannavörnum.

Með kærri kveðju og ósk um að ykkur gangi vel,

Reykjavík, 26. ágúst 2020
Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir skólameistari