Kæru nemendur FB

Nú er ljóst að heilbrigðisráðherra hefur framlengt samkomubannið og þar með talið þann hluta sem varðar takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar. Bannið hefur verið framlengt og mun nú standa til 4. maí en fyrirhugað var að það stæði til 13. apríl. Framhalds- og háskólar verða því áfram lokaðir fyrir nemendum.

Þetta gerir það að verkum að þegar páskaleyfi lýkur þann 15. apríl þá munum við halda áfram að kenna í fjarnámi eftir því sem unnt er. Lokun skóla verður endurskoðuð seinnipartinn í apríl og þá mun skýrast hvaða möguleikar eru í stöðunni varðandi skólahald í maí m.a. hvað varðar fyrirkomulag á verklegu námi og á lokaprófum. Við fylgjum fyrirmælum yfirvalda í hvívetna en það verður að vera jafn ljóst að við munum gera allt sem við getum til að koma öllum nemendum í gegnum önnina.

Kappkostað verður í samstarfi við Menntamálaráðuneytið að ljúka skólaárinu á eins eðlilegan hátt og frekast er kostur en ráðuneytið og framhaldsskólarnir hafa verið í mjög miklu samstarfi frá því þessi staða kom upp og svo verður áfram.

Í síðustu viku sendum við beiðni um að þið tækjuð þátt í könnun í Innunni um líðan ykkar í samkomubanni. 45% nemenda hafa svarað en við vildum hvetja þau ykkar sem eftir eiga að svara könnuninni til að gera það.