FB 50 ára

9. október 2025

Húsfyllir á 50 ára afmæli FB

Fjölbrautaskólinn í Breiðholti átti 50 ára afmæli laugardaginn 4. október og var því fagnað við hátíðlega athöfn í sal skólans. Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir skólameistari setti hátíðina og bauð Guðmund Inga Kristjánsson mennta- og barnamálaráðherra velkominn sem og Heiðu Björgu Hilmisdóttur borgarstjóra. Jón L. Árnason bað svo um orðið fyrir hönd Rótarýklúbbsins Reykjavík-Breiðholt en hann sagði frá stuðningi klúbbsins við skólann í gegnum tíðina og greindi af þessu tilefni frá rausnarlegum styrk til starfsbrautar skólans. Ingvar Sverrisson formaður skólanefndar til fjölda ára sem er jafnframt fyrrverandi nemandi FB flutti því næst hátíðarræðu og að lokum sagði Gunnar Þór Bjarnason ritstjóri bókarinnar Fjölbraut í 50 ár frá útgáfuferlinu en bókin sem er eftir Andra Þorvarðarson sögukennara við skólann kom út þennan sama dag. Pálmi Sigurhjartarson og Unnur Birna Björnsdóttir fluttu tónlist og Lovísa Margrét Eðvarðsdóttir nemandi í FB söng við þeirra undirleik.

  

Að lokinni dagskrá var gestum boðið að ganga um skólann. Auk þess sem hægt var að skoða kennslustofur og aðra aðstöðu voru þrjár sýningar á göngum skólans, hver og ein tileinkuð þeim þremur skólameisturum sem hafa starfað við skólann og endurspegluðu sýningarnar ólíkan tíðaranda á fjölbreyttan hátt. Að lokum var gestum boðið upp á veitingar í galleríi skólans þar sem einnig var fróðleg sýning um listafólk sem hefur gengið í skólann auk þess sem hægt var að fræðast um ýmsa tölfræði tengda FB.

  

Við þökkum þeim fjölmörgu gestum sem komu í afmælið, einnig þökkum við fyrir blóm, gjafir og heillaóskir sem skólanum hafa borist á síðustu dögum.  


Myndir frá afmælishátíðinni eru á myndasíðu skólans.


10. október 2025
Ráðstefnuröð í tilefni af 50 ára afmæli FB
2. október 2025
Fleiri færslur