Jafnréttisáætlun Fjölbrautaskólans í Breiðholti 2023-2026
Inngangur
Jafnréttisáætlun Fjölbrautaskólans í Breiðholti byggir á lögum nr. 150 frá 2020 um jafnan rétt og jafnan rétt kynjanna, lögum um jafna meðferð utan vinnumarkaðar og lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði.
Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna
Lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna
Lög um jafna meðferð á vinnumarkaði
Markmiðið er að nýta til jafns þann mannauð sem felst í menntun, reynslu og viðhorfum allra kynja. Jafnréttisáætlun skólans er ætlað að stuðla að jafnri stöðu og virðingu allra kynja innan skólans og minna starfsfólk, stjórnendur og nemendur á mikilvægi þess að allir fái notið sín óháð kyni, kynhneigð, aldri, kynþætti, fötlun, þjóðerni eða lífsskoðunum.
Í starfsmanna- og jafnréttisstefnu svo og áætlun skólans sem birt er í skólanámskrá segir:
- Í skólanum hefur allt starfsfólk jöfn tækifæri til framgangs.
- Jafnrétti og gagnkvæm virðing skal ríkja í öllu starfi skólans.
- Einelti, kynbundið ofbeldi og kynbundin eða kynferðisleg áreitni, mismunun eftir aldri, kynþætti, kynhneigð, fötlun, uppruna, þjóðerni, trúarskoðunum eða stjórnmálaskoðunum er ekki liðin innan skólans.
- Í skólanum er starfandi jafnréttisfulltrúi sem gætir þess að stefnunni sé fylgt.
Skólameistari tilnefnir jafnréttisfulltrúa.
Jafnréttisfulltrúi hefur það hlutverk að fylgjast með stöðu jafnréttismála í skólanum. Helstu verkefni jafnréttisfulltrúa eru að endurskoða jafnréttisáætlun FB, hafa eftirlit með því að henni sé fylgt og vera ráðgefandi fyrir nemendafélag og starfsfólk skólans.
Jafnréttisáætlunin er í tveimur hlutum. Fyrri hlutinn fjallar um skólann sem vinnustað og hvernig starfsmönnum eru tryggð réttindi sem kveðið er á um 5.-15. og 16.-23. grein jafnréttislaga. Síðari hlutinn fjallar um skólann sem menntastofnun og hvernig hann uppfyllir 15. og 16. grein laganna er snýr að nemendum.
Fjölbrautaskólinn í Breiðholti sem vinnustaður
6.-7. gr. Launajafnrétti og jafnlaunavottun
Í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti fá öll kyn sömu laun og kjör fyrir sambærileg störf. Fjármálastjóri skal í febrúar hvert ár gera samanburð á launum kynjanna og skila tölfræðilegri úrvinnslu til jafnréttisfulltrúa. Þar skal koma fram samanburður á launum m.v. kyn, stöðu og starfsaldur. Fjármálastjóri skal í mars hvert ár afhenda jafnréttisfulltrúa greiningu á hlut kynjanna í starfsmannahópnum.
Markmið | Aðgerð | Ábyrgð | Eftirfylgni |
---|---|---|---|
Tryggja að launaákvarðanir séu gegnsæjar, málefnalegar, skjalfestar og rekjanlegar | Árlega verði gerður samanburður á launum eftir kyni, starfshlutfalli, starfsaldri og stöðu. | Fjármálastjóri. | Jafnréttisfulltrúa verði afhent niðurstaða árlegrar tölfræðilegrar greiningar. |
Jafnlaunavottun sé viðhaldið | Reglubundin innri úttekt á jafnlaunakerfinu. | Skólameistari | Ytri úttektaraðili jafnlaunavottunar kemur skv. áætlun. |
20. gr. Laus störf og starfsþróun
Haustið 2023 eru starfsmenn Fjölbrautaskólans í Breiðholti 145, konur eru 93 og karlar 52. Skólinn auglýsir eftir starfsfólki af öllum kynjum og metur umsækjendur með tilliti til menntunar, reynslu og hæfni. Standi val um jafnhæft fólk skal ráða það sem jafnar hlut minnihlutahópa starfsfólks.
Markmið | Aðgerð | Ábyrgð | Eftirfylgni |
---|---|---|---|
Að öll kyn eigi jafna möguleika á ráðningu í störf hjá FB. | Auglýsingar séu ókyngreindar og höfði til allra kynja. | Skólameistari og aðstoðarskólameistari. | Jafnréttisfulltrúi fari yfir auglýsingar sem fara frá skólanum. |
Haustið 2023 eru stjórnendur í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti 14 (yfirstjórn, fagstjórar og forstöðufólk), konur eru 11 og karlar 3. Skólinn leitast við halda hlutfalli kynjanna í stjórnunarstörfum jöfnum. Þurfi að velja á milli tveggja jafnhæfra starfsmanna, af sitt hvoru kyni, þegar ráðið er í stjórnunarstörf, skal það kyn valið sem hallar á í stjórnendahópnum. Fjármálastjóri skal í mars hvert ár afhenda jafnréttisfulltrúa greiningu á hlut allra kynja í stjórnunarstöðum í skólanum. Öll kyn skulu njóta sömu möguleika til nýrra verkefna.
Markmið | Aðgerð | Ábyrgð | Eftirfylgni |
---|---|---|---|
Að jafna stöðu kynjanna í stjórnunarstöðum. | Að hvetja öll kyn til endurmenntunar og til að taka að sér ábyrgðarmeiri störf. | Skólameistari og aðstoðarskólameistari. | Jafnréttisfulltrúi fari í mars hvert ár yfir hlutfall kynjanna í stjórnunarstörfum. |
28. gr. Þátttaka í nefndastarfi
Við skipan í nefndir innan skólans eða á vegum skólans skal leitast við að hafa kynjahlutfall sem jafnast svo sjónarmið allra kynja fái að njóta sín í starfinu. Jafnréttisfulltrúi skal í maí hvert ár fá yfirlit frá skólameistara yfir nefndaskipan síðasta skólaárs.
Markmið | Aðgerð | Ábyrgð | Eftirfylgni |
---|---|---|---|
Að jafna stöðu kynja í stjórnum og nefndum skólans. | Þeim sem tilnefna í nefndir verði gert að tilnefna öll kyn. | Skólameistari. | Jafnréttisfulltrúi fái í maí ár hvert yfirlit yfir skipun í nefndir. |
13. gr. Endurmenntun
Allir skulu njóta sömu möguleika á endurmenntun. Nú er það svo að kennarar bera sjálfir að mestu ábyrgð á sinni endurmenntun, án aðkomu mikillar frá skólanum.
Markmið | Aðgerð | Ábyrgð | Eftirfylgni |
---|---|---|---|
Að allir njóti sömu möguleika til endurmenntunar. | Kyngreind samantekt með upplýsingum um þátttöku í endurmenntun. | Skólameistari. Aðstoðarskólameistari. | Jafnréttisfulltrúi fái yfirlit yfir stöðu mála í október ár hvert. Jafnréttisfulltrúi sendir greiningu til starfsfólks skólans með tölvupósti. |
13. gr. Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs
Fjölbrautaskólinn í Breiðholti leitast við að gera starfsmönnum mögulegt að samræma skyldur sínar við vinnustaðinn og fjölskylduna eftir því sem kostur er. Sveigjanlegur vinnutími er í boði í þeim deildum þar sem því verður við komið. Ekki verða skipulagðir fundir á þeim tíma sem foreldrar þurfa að sækja börn í leikskóla.
14. gr. Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni.
Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni er ekki liðin í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, hvorki af hálfu starfsmanna né nemenda. Samkvæmt 14. gr. jafnréttislaga skulu atvinnurekendur og yfirmenn stofnana og félagasamtaka gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað, stofnun, í félagsstarfi eða skólum.
Samkvæmt 2. gr. jafnréttislaga (orðskýringar) er kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni skilgreind á eftirfarandi hátt:
Kynbundin áreitni: Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.
Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu þess sem fyrir henni verður, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg..
Kynbundið ofbeldi: Ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi. Skólinn hefur sett sér aðgerðabundna áætlun til að fylgja eftir þessu stefnumiði, sjá aftar.
Fjölbrautaskólinn í Breiðholti sem menntastofnun:
Jafnrétti í skólastarfi
15. gr. Menntun og skólastarf
Kynjasamþættingar skal gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð í skóla- og uppeldisstarfi, þar á meðal íþrótta- og tómstundastarfi. Öllum nemendum, óháð kyni, sem óska eftir skólavist við Fjölbrautaskólann í Breiðholti, og uppfylla þau inntökuskilyrði sem Mennta- og barnamálaráðuneytið setur, standa allar brautir skólans til boða.
15. gr. Í náms- og starfsfræðslu og við ráðgjöf í skólum skulu allir nemendur óháð kyni hljóta fræðslu og ráðgjöf í tengslum við sömu störf.
Öll námsráðgjöf við skólann miðast við að bjóða nemendum nám eftir áhuga þeirra og getu, algjörlega óháð kyni. Námsráðgjafar hafa reynt að vera sérstaklega hvetjandi ef nemandi sýnir brautum áhuga þar sem fleiri af gagnstæða kyninu eru fyrir, s.s. á snyrtibraut, á sjúkraliðabraut, á íþróttabraut, í húsasmíði og rafvirkjun.
Á haustönn 2023 var skipting nemenda í dagskóla á námssviðunum eftirfarandi:
Svið | KK | Hlutf. kk á sviði | KVK | Hlutf. kvk á sviði | Óskilgreint kyn | Hlutf. á sviði |
---|---|---|---|---|---|---|
Bóknámssvið | 272 | 56% | 215 | 44% | 1 | 0,2% |
Listnámssvið | 44 | 27% | 119 | 72% | 2 | 1,2% |
Verknámssvið | 291 | 56% | 227 | 44% | 1 | 0,2% |
Starfsbraut | 32 | 59% | 22 | 41% | ||
639 | 52% | 583 | 49% | 4 |
Á haustönn 2023 var skipting nemenda í kvöldskóla á námssviðunum eftirfarandi:
Svið | KK | Hlutf. kk á sviði | KVK | Hlutf. kvk á sviði |
---|---|---|---|---|
Bóknámssvið | 52 | 49% | 54 | 51% |
Verknámssvið | 396 | 68% | 184 | 32% |
448 | 65% | 238 | 35% |
15. gr. Á öllum skólastigum skulu nemendur hljóta fræðslu um jafnréttismál þar sem m.a. skal lögð áhersla á að búa öll kyn undir jafna þátttöku í samfélaginu, svo sem í fjölskyldu- og atvinnulífi. Kennslu- og námsgögn skulu þannig úr garði gerð að kynjum sé ekki mismunað.
Jafnrétti og mannréttindi eru námsþættir í námskrá á öllum námsbrautum skólans. Kennarar skólans reyna að velja námsefni og kennsluaðferðir þannig að öll kyn fái að njóta sín. Kynjafræði er kennd sem bundið val fyrir nemendur á félagsvísindabraut og sem frjálst val á öðrum brautum skólans. Þar fá nemendur fræðslu um jafnrétti kynjanna og þjálfun í að vinna gegn hvers konar misrétti. Fjallað er um jafnrétti í ýmsum áföngum svo sem í félagsfræði, fjölmiðlafræði, sögu, sálfræði og íslensku.
Markmið | Aðgerð | Ábyrgð | Eftirfylgni |
---|---|---|---|
Öllum nemendum óháð kyni standa allar brautir skólans til boða, standist þeir inntökuskilyrðin. | Funda reglulega með öllum starfsmönnum þar sem jafnréttismálum er gert hátt undir höfði. | Skólameistari. Aðstoðarskólameistari. | Kanna eftir hverja önn hvernig kennarar hafa sett þessa umræðu inn í námsefnið hjá sér. Niðurstöður síðan kynntar á kennarfundi. |
Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni er ekki liðin í skólanum eða í félagsstarfi á vegum skólans. | Útbúa viðbragðsáætlun sem tilbúin verður í lok haustannar 2023. Áætlunin verður svo kynnt fyrir starfsmönnum skólans á starfsmannafundi vorið 2024. Nemendur fá áætlunina senda í tölvupósti. Kennarar komi fræðslu um kynferðislega áreitni inn í námsefnið eins og við verður komið. | Skólameistari. | Skoða niðurstöður kannana um líðan sem lagðar eru fyrir starfsmenn og nemendur skólans |
Jafnréttisáætlun þessi skal endurskoðuð á þriggja ára fresti. Jafnréttisáætlunin er birt á vef skólans.
3. júní 2022
Hulda Hlín Ragnars
Jafnréttisfulltrúi