Spurt og svarað
Hver er munur á vinnustaðanámi og starfsþjálfun í sjúkraliðanáminu?
Vinnustaðanámið eru 3 áfangar, VINN3ÖH08 – VINN2LS08 – VINN3GH08. Þú verður að taka vinnustaðanámið samhliða hjúkrunaráföngum eins og kemur fram á námsáætlun sem er að finna á heimasíðu sjúkraliðbrautar.
Skólinn sér um að útvega þér námspláss á sjúkrastofnun. Vinnustaðanám er í 3 vikur í senn, 12 vaktir og er hver vakt 8 klst. Þú ert að læra verklega hjúkrun undir handleiðslu reynds sjúkraliða sem er þinn leiðbeinandi. Hjúkrunarkennari FB fylgir þér einnig í náminu. Vinnustaðanám er ólaunað.
Starfsþjálfun – STAF3ÞJ27 er samtals 80 vaktir. Í starfsþjálfun öðlast þú hæfni og sjálfstæði í störfum sjúkraliða undir handleiðslu reyndra sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga. Þú mátt hefja starfsþjálfun eftir að hafa lokið þínu fyrsta vinnustaðanámi, VINN3ÖH08 og bóklegum áfanga í öldrunarhjúkrun, HJÚK3ÖH05. Þú sækir sjálf/ur um starfsþjálfun á deild/stofnun og gerir námssamning við viðkomandi stofnun/deild.
Í starfsþjálfun verður þú að vera í 60% starfshlutfalli að lágmarki. Starfsþjálfun verður að skipta niður á tvo vinnustaði / tvö tímabil. Þú færð leyfi til að taka allt að 40 vaktir í fyrstu starfsþjálfun.
Þú getur fengið metnar allt að 20 vaktir ef þú hefur unnið síðastliðin 5 ár eða lengur við umönnun. Starfshlutfall þarf að vera yfir 60% yfir vinnutímabilið. Þá verður þú að skila inn staðfestingu á vinnutímabili frá launaskrifstofu og meðmælum frá hjúkrunardeildarstjóra/vinnuveitanda þar sem kemur skýrt fram við hvað störf þú varst að vinna.
Starfsþjálfun er launuð. Launin eru skv. kjarasamningi Sjúkraliðafélagsins.
Hvað þarf ég að vera gamall/gömul til að byrja í vinnustaðanámi?
Þú verður að vera orðin lögráða, hafa náð 18 ára aldri. Miðað er við fæðingardag þinn.
Stofnanir, eins og Landspítali, gera kröfu um að nemendur hafi náð 18 ára aldri áður en þeir hefja vinnustaðanám.
Má ég sleppa áfanga í vinnustaðanámi ef ég hef unnið við umönnun í mörg ár?
Nei, það er ekki hægt. Vinnustaðanám er 8 eininga áfangi sem þú verður alltaf að taka til að ljúka námi á sjúkraliðabraut/brú.
Má ég skrá mig í tvö vinnustaðanám á sömu önn?
Nei það er ekki mögulegt. Hver hjúkrunaráfangi er undanfari fyrir næsta hjúkrunaráfanga á eftir.
Það verður að taka hjúkrunaráfangana í réttri röð skv. námsskipulagi sjúkraliðabrautar/brúar.
Hvenær má ég byrja í starfsþjálfun?
Þú mátt hefja starfsþjálfun eftir að hafa lokið þínu fyrsta vinnustaðanámi – VINN3ÖH08 og bóklegum hjúkrunaráfanga í öldrunarhjúkrun – HJÚK3ÖH05
Í lok annar gefur áfangastjóri út vottorð um hvar þú megir vinna í starfsþjálfun, ásamt námsferli þínum. Nemandi má ekki taka starfsþjálfun á sínum vinnustað.
Hvað þarf ég að gera áður en ég byrja í starfsþjálfun?
Þú þarft sjálf/ur að sækja um starfsþjálfun. Á vottorðinu frá skólanum, sem er gefið út í lok hverrar námsannar, kemur fram hvar þú mátt sækja um. Dæmi: Þegar þú hefur lokið HJÚK3ÖH08 og VINN3ÖH08 þá mátt þú sækja um á hjúkrunarheimili eða öldrunardeild. Starfshlutfall verður að vera að lágmarki 60% og fjöldi vakta að hámarki 40.
Vottorðinu og námsferli skilar þú inn með umsókn þinni um starfsþjálfun til vinnuveitanda. Einnig færð þú sent einkunnarblað fyrir starfsþjálfun með vottorðinu. Þú afhendir hjúkrunardeildarstjóra einkunnarblaðið, sem fyllir það út í lok starfsþjálfunar þinnar. Þú skilar síðan inn einkunnarblaðinu til fagstjóra svo hægt sé að færa inn í námsferil þinn á INNU.
Hvenær og hvaða deildir má ég sækja um í starfsþjálfun?
Þú mátt sækja um og starfa á öldrunardeild/hjúkrunarheimili þegar þú hefur lokið öldrunarhjúkrun; VINN3ÖH08 og HJÚK3ÖH05
Þú mátt sækja um og starfa á öldrunardeild/hjúkrunarheimili, hand- og lyflæknisdeild, þegar þú hefur lokið öldrunarhjúkrun og hand- og lyflæknishjúkrun;
VINN3ÖH08 og HJÚK3ÖH05
VINN2LS08 og HJÚK2HM05/HJÚK2TV05
Þú mátt sækja um og vinna á öldrunardeild/hjúkrunarheimili, hand- og lyflæknisdeild, og sérdeild þegar þú hefur lokið öldrunarhjúkrun, hand- og lyflæknishjúkrun og samfélagshjúkrun
VINN3ÖH08 og HJÚK3ÖH05
VINN2LS08 og HJÚK2HM05/HJÚK2TV05
VINN3GH08 og HJÚK3GH05
Þarf ég alltaf að byrja á starfsþjálfun strax eftir vinnustaðanám?
Nei, það þarft þú ekki. Þú ræður hvenær þú byrjar á starfsþjálfun, en þú verður að vera búin að ljúka
fyrsta vinnustaðanáminu þínu og bóklegum hjúkrunaráfanga í öldrunarhjúkrun,
VINN3ÖH08 og HJÚK3ÖH05
Má ég taka starfsþjálfun á deild þar sem ég er í vinnustaðanámi?
Nei, það má ekki. Markmið með starfsþjálfun er að þú fáir fjölbreytt námstækifæri og kynnist öðrum vinnustöðum og verklagi.
Þarf ég að vera í lágmarksvinnuhlutfalli þegar ég fer í starfsþjálfun?
Já, þú verður að vera í 60% lágmarksvinnuhlutfalli í starfsþjálfun
Er í lagi að taka starfsþjálfun á einum vinnustað?
Nei, það má ekki. Þú verður að taka starfsþjálfun á amk. tveimur stöðum Tilgangur og markmið starfsþjálfunar er að nemandi fái fjölbreytt námstækifæri og kynnist öðrum vinnustöðum og auki þannig víðsýni og menntun.
Ef ég hef unnið við umönnun, get ég fengið eitthvað metið af þeirri vinnu til starfsþjálfunar?
Já, þú getur fengið metnar allt að 20 vaktir ef þú hefur unnið síðastliðin 5 ár eða lengur við umönnun.
Starfshlutfall þarf að vera yfir 60% yfir vinnutímabilið.
Þá verður þú að skila inn staðfestingu á vinnutímabili frá launaskrifstofu og meðmælum frá hjúkrunardeildarstjóra/vinnuveitanda þar sem kemur skýrt fram við hvað störf þú varst að vinna.
Get ég farið í starfsþjálfun í heimahjúkrun þegar ég hef lokið öldrunarhjúkrun?
Nei, heimahjúkrun tilheyrir samfélagshjúkrun. Í heimahjukrun fara nemendur einir í vitjanir inn á heimili fólks og þurfa því að hafa öðlast víðtæka þekkingu, færni og reynslu í störfum sjúkraliða til að geta unnið einir og sjálfstætt við hjúkrun í heimahúsi.
Hvaða deildir/stofnanir get ég sótt um eftir að ég hef lokið samfélagshjúkrun?
Þú getur sótt um sérdeildir eins og bráðamóttökur, gjörgæsludeildir, geðdeildir, barnadeildir, kvennadeildir, líknardeildir, heimahjúkrun, Heilsustofnun Hveragerði og Reykjalund.
Hver eru launin í starfsþjálfun?
Þú þiggur laun skv. kjarasamningi Sjúkraliðafélagsins. Ég ráðlegg þér að hafa samband við þitt fagfélag og fá ráðleggingar varðandi nemalaun þín.
Þarf ég að kunna íslensku til að byrja í sjúkraliðnáminu?
Já, þú þarft að geta talað og skrifað á íslensku, þó ekki sé að tala um fullkoma íslensku. Þegar þú ferð í vinnustaðanám þá gera stofnanir kröfu um að nemendur geti skilið málið og tjáð sig við annað starfsfólk og skjólstæðinga.
Ef ég kann eitthvað í íslensku, má ég þá byrja í sjúkraliðanáminu?
Já, þú mátt það. En þá tekur þú stutt stöðumat í íslensku í skólanum sem kannar ritun og skilning.
Get ég fengið aðstoð við íslensku í náminu?
Já, þú getur fengið aðstoð í prófum með útskýringum á orðum og setningum sem geta verið erfið. Einnig stendur námsver FB nemendum til boða. Námsverið býður upp á fjölbreytta námsaðstoð. Þá byrjar þú á að hafa samband við námsráðgjafa skólans sem aðstoða þig. Skólinn býður upp á íslenskuáfanga fyrir útlendinga og íslensku tengt námi á sjúkraliðabraut
Er boðið upp á íslenskuáfanga í FB fyrir nemendur með erlendan tungumálabakgrunn?
Já við bjóðum upp á nám fyrir nemendur sem eru samhliða skráðir í annað nám í FB. Áfanginn heitir ÍSAN1GE05.