Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir skólameistari talaði í útskriftarræðu sinni -um mikilvægi þess að sérhver einstaklingur byggi yfir innra viðnámi til að sporna gegn miklu áreiti, m.a. af samfélagsmiðlum og snjalltækjum. Hugsanlega væri þetta áreiti ein af ástæðum þess að þunglyndi og kvíði hefur snaraukist meðal ungmenna. Síðan fjallaði skólameistari um hugrækt sem tæki til að takast á við kvíðavandann og sagði m.a.:
„Bágt er að binda huga sinn“, segir í gömlu máltæki. Það er ekki auðvelt kyrra hugann. Hugsanirnar eru á fleygiferð í kollinum á okkur. Hugleiðsla og núvitundarþjálfun er aðferð til að hjálpa okkur að temja hugann. Í gegnum slíka þjálfun lærum við að sjá og skilja hvernig hugsanaflæðið gerir okkur óróleg. Við þjálfumst í að greina okkur sjálf frá hugsunum okkar. Og við það líður okkur betur.
Víða um heim er nú farið að gera hugleiðslu að föstum þætti í skólastarfinu. Þótt enn þurfi að gefa mun meiri tíma fyrir þessar tilraunir til að geta fullyrt um gagnsemina með vísindalegum sönnunum, þykja þær lofa góðu. Námsárangur nemenda eykst og líðan þeirra mælist betri en hjá þeim sem ekki hugleiða. Heimildamyndin Innsæi sem sýnd var í Bíó Paradís núna í haust segir frá mögnuðum árangri af hugræktarþjálfun hjá ungum nemendum í breskum skóla.
Minn draumur er sá að allir nemendur sem útskrifast úr FB á næstu árum hafi í skólanum lært nokkrar aðferðir til að ná betri tökum á sjálfum sér. Þar á meðal ýmsar aðferðir hugræktar.“