Þjónusta

Meginmarkmið FB er að allir nemendur nái árangri í námi sínu. Fjölbreytni er fagnað og talin ein helsta auðlind skólans að nemendur eru hver öðrum ólíkir. Fagfólk skólans hjálpar nemendum að ná markmiðum sínum, ávallt með þá sýn að leiðarljósi að allir nemendur útskrifist með lokapróf.

Nemendaþjónusta

Nemendaþjónusta FB heldur utan um hvers kyns stuðning við nemendur sem er till þess fallinn að stuðla að góðum námsárangri og farsæld í lífi og starfi. Nemendaþjónustan felur í sér þjónustu námsráðgjafa, sérkennara, stuðningskennara, sérfræðinga í bókasafnsfræðum- og upplýsingatækni, umsjónarkennara, fóstra, markþjálfa, félagsmála- og forvarnarfulltrúa, verkefnastjóra sem sinna tilteknum nemendahópum, svo og fagstjóra og kennara starfsbrautar. Sviðsstjóri nemendaþjónustu er Sesselja Pétursdóttir sep@vu2016.carl.1984.is.

Námsver

Námsver FB er staðsett inn af bókasafni skólans. Umhverfið er bjart og fallegt og þar ríkir kyrrð og ró. Allir nemendur skólans eru velkomnir í námsver. Þar geta þeir til dæmis klárað heimanám, fengið afnot af fartölvu til notkunar á staðnum og leitað ráða varðandi nám og skipulag þess. Nemendur sem eru með námsvanda og geta sýnt fram á hann með greiningu geta fengið aðstoð við prófatöku í námsveri, eins og lengri próftíma, upplestur og aðstoð við ritun. Einnig er hægt að fá aðstoð í sérstökum greinum, aðgang að ýmsum forritum sem eru gagnleg við nám og leiðbeiningar varðandi notkun á þeim. Umsjón með námsveri hefur Sunneva Filippusdóttir og henni til aðstoðar eru kennarar úr ýmsum greinum skólans. Netfang Sunnevu er suf@vu2016.carl.1984.is.

Nánar um námsverið.

Bókasafn

Á bókasafni skólans er lesaðstaða og aðstaða til hópavinnu. Þar eru tölvur sem nemendur geta notað í verkefnavinnu. Jafnframt eru þar bækur, geisladiskar, tímarit og annað safnefni auk aðgengis að gagnagrunnum til upplýsingaöflunar. Bókasafnsfræðingur skólans er Þórunn Snorradóttir og er hún í nánu samstarfi við kennara og nemendur um kennsluefni og stuðning við nám og kennslu. Netfang Þórunnar er ths@vu2016.carl.1984.is.

Nánar um bókasafnið.

Umsjónarkennarar og fóstrar

Nemendur undir 18 ára hafa umsjónarkennara. Hlutverk hans er að leiðbeina nemendum í upphafi framhaldsskólagöngunnar þannig að þeir læri að skilja áfangakerfið og geti sjálfir tekið ábyrgð á námi sínu. Umsjónarkennarinn fylgist með námsástundun nemenda sinna, mætingum og árangri. Hann er nemandanum og forráðamönnum til ráðuneytis um ýmis mál er upp kunna að koma.

Umsjónarkennarinn kallar á nemandann og forráðamenn til viðtals fyrir byrjun skólagöngunnar og síðan einu sinni á önn þar til nemandinn hefur náð 18 ára aldri.

Frá haustönn 2016 stendur nokkrum nemendum til boða þjónusta fóstra. Fóstrar eru reyndir kennarar. Þeir vinna undir leiðsögn markþjálfa og hitta nemendur reglulega og ræða markmiðssetningu og leiðir til að ná árangri í náminu. Tilgangur fóstrunar er að stemma stigu við ótímabæru brotthvarfi nemenda úr skólanum.

Elísabet Vala Guðmundsdóttir náms- og starfsráðgjafi heldur utan um skipulag umsjónar í skólanum. Netfang hennar er: evg@vu2016.carl.1984.is.

Stuðningur við erlenda nemendur

Nemendur af erlendum uppruna innritast inn á ólíkar námsbrautir skólans eftir undirbúningi og áhugasviði. Við upphaf náms eru allir nýnemar boðaðir í viðtal ásamt foreldrum eða forráðamanni hjá umsjónarkennara. Þar eru helstu starfshættir skólans kynntir, auk námsstuðnings sem skólinn hefur uppá að bjóða. Nemendur með annað móðurmál en íslensku eiga rétt á kennslu í íslensku sem öðru tungumáli og fræðslu um íslenskt samfélag og menningu.

Lögð er áhersla á að fylgjast með námi og námsframvindu erlendra nemenda og grípa inn í með viðeigandi stuðningi ef þörf er á eða ef nemandi óskar eftir slíkri aðstoð. Dagbjört L. Kjartansdóttir Bergmann er verkefnisstjóri þjónustu við erlenda nemendur. Hún fylgist með námi þeirra og námsframvindu og veitir ráðgjöf og námsstuðning eftir þörfum. Netfang Dagbjartar er dlk@vu2016.carl.1984.is.

Félagsmála- og forvarnarfulltrúar

Félagsmálateymi, skipað tveimur fulltrúum kennara ber ábyrgð á að aðstoða nemendur í málefnum sem snerta félagslíf, forvarnir, hollustuhætti og umhverfismál. Félagsmála- og forvarnafulltrúar eru Auður Lorenzo spænskukennari, netfang aul@vu2016.carl.1984.is og Hulda Hlín Ragnars félagsfræðikennari, netfang hhr@vu2016.carl.1984.is.

Tölvuþjónusta

Tölvuþjónusta skólans er í höndum Guðjóns Ívarssonar kerfisstjóra. Hann er á bókasafni skólans kl. 9:30-12:30 alla daga. Netfang Guðjóns er gman@vu2016.carl.1984.is.

Skólinn notar skýjalausn Microsoft, One Drive for Business, til að geyma rafræn skjöl. Allir nemendur skólans frá aðgang að skýinu og veitir aðgangurinn þeim heimild til að hlaða Office forritum niður á tölvur sínar. Hér eru leiðbeiningar um hvernig megi sækja Office-pakkann.

Í upphafi annar hafa nemendur prentkvóta upp að 50 blöðum og geta keypt viðbótarkvóta hjá Guðjóni, ef þörf er á.

Innan er námsskráningarkerfi framhaldsskólanna. Þar eru skráðar og varðveittar allar upplýsingar um námsferla nemenda, stundaskrár, viðveruskráning o.fl. Nemandinn fær aðgang að Innu og einnig geta forráðamenn nemenda undir 18 ára aldri fengið aðgang. Þeir sækja sér lykilorð í gegnum „gleymt lykilorð“ og nota eigin kennitölu. Samskipti við nemendur og foreldra fara að hluta til í gegnum Innu og því er mikilvægt að skrá í Innuna virkt netfang nemanda og forráðamanns. Ef netfangið í Innu er ekki rétt skal senda tölvupóst til fb@vu2016.carl.1984.is með ósk um breytingu. Ef kennari forfallast, fá nemendur sendar upplýsingar þar um í tölvupósti í gegnum Innuna. Umsjón með Innu hefur Berglind Halla Jónsdóttir áfangastjóri, netfang hennar er bhj@vu2016.carl.1984.is.

Dreifnám (Moodle) er kennsluvefur sem kennarar nota í samskiptum við nemendur, til að miðla upplýsingu, verkefnum, prófum og margs kyns ítarefni. Vefslóðin er: fb.dreifnam.is. Jóhanna Geirsdóttir tölvukennari hefur umsjón með dreifnáminu (Moodle) og sinnir þjónustunni í gegnum tölvupóst. Netfang hennar er jge@vu2016.carl.1984.is.

Nemendamötuneyti

Á fyrstu hæð í nýbyggingu er mötuneyti nemenda. Skólinn leggur áherslu á að þar sé í boði hollt fæði á hagstæðu verði. Matseðlar eru gefnir út fyrir hverja viku og auglýstir á heimasíðu. Þá býður skólinn nemendum hafragraut fjóra morgna í viku. Hægt er að kaupa klippikort með inneign fyrir máltíðum í mötuneytinu.

Netsala NFB

Nemendafélagið rekur netsölu í samvinnu við skólann. Þar eru seld námshefti sem kennarar skólans hafa útbúið. Einnig er hægt að kaupa þar skólapeysuna. Einungis er hægt að greiða með greiðslukorti og afhending fer fram á skrifstofu skólans sem er opin alla daga frá 8:00-15:00.

Geymsluskápar

Nemendur geta leigt geymsluskápa yfir önnina gegn 1.500 króna gjaldi. Við skil á lykli fá nemendur 1000 krónur endurgreiddar. Lyklarnir eru afhentir á skrifstofu skólans.

Skrifstofa

Skrifstofa skólans er opin alla daga frá 8:00-15:00. Fulltrúar á skrifstofu svara öllum almennum fyrirspurnum, veita upplýsingar um starfsemi skólans og afgreiða ýmis mál, s.s. útgáfu vottorða og námsferla. Á skrifstofu er ljósritunarþjónusta fyrir kennara. Fulltrúar eru Árný Eggertsdóttir, netfang ase@vu2016.carl.1984.is og Silja Hrund Barkardóttir, netfang shb@vu2016.carl.1984.is.

FabLab Reykjavík

FabLab Reykjavík er á fyrstu hæð skólans og gengið inn við nýja innganginn. Fab Lab er stytting á enska heitinu „fabrication laboratory” og er stundum kölluð stafræn smiðja á íslensku. Markmið með smiðjunum er að hvetja einstaklinga og frumkvöðla til að láta hugmyndir sínar verða að veruleika, skapa tækifæri til vinnu við frumgerðasmíð og vöruþróun með því að bjóða upp á aðgang að stafrænum framleiðslutækjum og búnaði af ýmsum toga. Fyrirspurnir má senda á reykjavik@fablab.is.