Teymi FB með lausnina Soft Block sem hannar sófaeiningar úr gömlum dýnum sigraði í nýsköpunarhraðli MEMA menntamaskínu. Í MEMA vinna nemendur að því að búa til virka frumgerð að nýsköpunarhugmynd. Fjögur teymi úr FB tóku þátt að þessu sinni og voru tvö teymi úr skólanum meðal fimm efstu liða. Sigurteymið skipa þær Elísa Marie Guðjónsdóttir, Erla Lind Guðmundsdóttir og Eydís Rut Ómarsdóttir. Leiðbeininendur þeirra voru listnámskennararnir Harpa Dögg Kjartansdóttir og Sigríður Ólafsdóttir.  Verkefnið er umfangsmikið og fer fram í gegnum hönnunar og tæknispretti. Að þessu sinni var áskorunin eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna: Ábyrg neysla og framleiðsla. Það er FabLab Reykjavíkur sem leiðir verkefnið með stuðningi FB, mennta- og menningarmálaráðuneytis, Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands.  Skólarnir sem tóku þátt auk FB voru Tækniskólinn, Fjölbrautaskólinn í Ármúla, Mennaskólinn við Hamrahlíð, Fjölbrautaskóli Snæfellinga, Kvennaskólinn og Fjölbrautaskóli Vesturlands.  Verðlaunin voru glæsileg að venju, Háskóli Íslands veitti öllum í sigurteyminu styrk sem nemur upphæð skráningargjalda fyrsta árið við Háskóla Íslands. Sigurteymið fékk þar að auki 250.000 króna verðlaunafé frá verkfræðistofunni EFLU, vefnámskeið í stofnun fyrirtækja í boði Frumkvöðlar.is og hágreiðslustofan ShaveCave bauð öllu liðinu í klippingu. Rafhlaupahjólaleigan Hopp Reykjavík gaf teymunum á bak við þær fimm hugmyndir sem dómnefnd mat bestar 10 fríar ferðir. Nánar má lesa um MEMA á www.mema.is. Sjá einning frétt á heimasíðu  . Við óskum sigurvegurunum og öllum þátttakendum til hamingju með árangurinn!