Í áfanganum kynnast nemendur nokkrum grundvallarsannindum evklíðskrar rúmfræði. Lögð er áhersla á að nemendur afli sér þekkingar á sönnunum og uppbyggingu sannana og geti rökstutt niðurstöður og aðferðir. Nemendur öðlist færni í að leysa rúmfræðileg vandamál, reikna flatarmál og ummál ýmissa mynda, reikna rúmmál og yfirborð ýmissa hluta, reikna hornastærðir með margvíslegum hætti. Auk þess er lögð áhersla á að nemendur tileinki sér táknmál stærðfræðinnar og noti með réttum hætti. Glæstri sögu stærðfræðinnar er einnig gerð lítilsháttar skil.

Efnisþættir sem eru teknir fyrir: Horn, þríhyrningar og aðrir marghyrningar, einslaga myndir, hringir, flatarmál og ummál, rúmmál og yfirborð, hornaföll, rökfræði, sannanir og saga stærðfræðinnar.