Í áfanganum er farið yfir sögu mannkyns og Íslands frá upphafi og fram á 18. öld. Fjallað er um helstu atriði í sögu mannkyns í fornöld og á miðöldum og áhersla lögð á sögu Grikklands til forna, Rómarveldi, víkingaferðir, landnám Íslands, stofnun Alþingis og kristnitöku. Önnur helstu viðfangsefni eru endurreisn, landafundir, siðaskipti, upplýsing og iðnbylting. Ljósi er varpað á stjórnmál, efnahagsþróun, hugmyndasögu og daglegt líf fólks á fyrri tíð. Nemendur öðlist þekkingu og skilning á tímabilum og viðfangsefnum sögunnar, geti greint orsakir og afleiðingar helstu atburða og áhrif hugmynda á söguþróunina, sjái sögu Íslands í samhengi við sögu Evrópu og heimsins og þjálfist í verkefnavinnu og nýti við það ýmis gögn, t.d. handbækur og Netið.