Alþjóðadagur gegn kynbundnu ofbeldi er 25. nóvember ár hvert. Dagana 25. nóvember til 10. desember beita alþjóðasamtök Soroptimista sér fyrir því að vekja athygli á ofbeldi gegn konum undir heitinu „Roðagyllum heiminn“.  Að því tilefni höfum við í samvinnu við Soroptimistaklúbb Hóla-og Fella lýst upp skólann í roðagylltu ljósi sem er tákn vitundarvakningarinnar. Í mörg ár hefur Soroptimistaklúbbur Hóla-og Fella gefið þeirri stúlku sem er hæst á stúdentsprófi peningaverðlaun. Vitundarvakningin fellur vel að heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna. FB er Unesco skóli og við tökum virkan þátt í því að vekja athygli á og vinna með heimsmarkmiðin en þar er meðal annars lögð áhersla á jafnrétti kynjanna, heilsu og vellíðan. Bæði konur og karlar verða fyrir kynbundnu ofbeldi en konur og stúlkur eru samt yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem verða fyrir slíku ofbeldi. Lesa má nánar um verkefnið á www.soroptimist.is