Skólastarf á Covid tímum

Kæru nemendur í FB

Við leggjum áherslu á þið náið árangri í náminu og að starfsumhverfi skólans sé eins öruggt og vera má. Við skipuleggjum því skólastarfið með ítrustu sóttvarnarsjónarmið að leiðarljósi. Ég vil biðja ykkur að lesa vel þau tilmæli sem hér eru sett fram um sóttvarnir. Einnig vil ég biðja ykkur að fylgja fyrirmælum kennara og starfsfólks um sóttvarnir.

Um skólastarfið

  • Brýnt er að fylgjast vel með upplýsingum frá skólanum og kennurum. Skoðið tölvupóst reglulega. Fyrirkomulag á kennslu og skólastarfi kann að breytast með stuttum fyrirvara.
  • Nemendur eru hvattir til að ræða mál sín og hugsanlegar áhyggjur við umsjónarkennara, náms- og starfsráðgjafa, skólasálfræðing eða aðra innan skólans sem þeir treysta. Upplýsingar um starfsfólk FB eru á heimasíðu skólans.
  • Foreldrum er velkomið að hafa samband við umsjónarkennara, sérfræðinga í nemendaþjónustu eða aðra starfsmenn skólans. Þó eru þeir vinsamlegast beðnir að koma ekki í skólahúsnæðið nema brýna nauðsyn beri ti
  • Ræktum vinasambönd. Húmor og jákvæðni hjálpa mikið.
  • Mötuneyti nemenda verður lokað áfram enn um sinn. Nemendum er heimilt að borða nesti í stofum í frímínútum. Muna þarf að ganga vel frá öllu eftir sig.
  • Bókasafnið og vinnustofa nemenda verða opin og verður takmarkaður fjöldi þar á hverjum tíma. Einnig verða einstaka kennslustofur opnar til að setjast þar inn og læra eða fylgjast með fjarkennslu. Hópamyndun í þessum rýmum er bönnuð eins og í öðrum almennum rýmum skólans.
  • Þurfi nemendur að vera í einangrun eða í sóttkví verður unnið að því að finna lausnir varðandi þátttöku í námi. Það verður gert í samstarfi við stjórnendur, viðeigandi kennara og nemendur/forráðamenn.
  • Athugið að breytingar á skólastarfi geta orðið fyrirvaralaust komi upp smit eða vegna fyrirmæla frá Almannavörnum.

Um sóttvarnir

  • Við upphaf vorannar er skólanum ekki lengur skipt niður í sóttvarnahólf með föstum inngöngum. Nemendur eru hins vegar beðnir um að fara um þann inngang sem er næst þeim kennslurýmum sem þeir sækja kennslustundir í og að ferðast ekki um byggingar skólans meira en þörf krefur.
  • Nemendur gæti þess að þvo sér oft um hendur með sápu og vatni í a.m.k. 20 sekúndur. Þvoið hendur áður en þið komið í skólann, í skólanum og áður en þið farið úr skólanum. Forðist að snerta andlitið!
  • Ef ekki er aðstaða til handþvottar skal nota handspritt sem er víða um skólann.
  • Nemendur eru beðnir um að hjálpa til við að sótthreinsa kennslustofur á milli námshópa. Kennari stýrir sóttvörnum í kennslustundum og nemendum ber að hlýða kennara sínum.
  • Gætum þess að virða nándarmörk og reglur sem um þau gilda hverju sinni. Við upphaf vorannar eru 2 metra nándarmök en sé farið inn fyrir þau er grímuskylda.
  • Grímunotkun er þó alltaf mikilvæg. Nemendur er hvattir til að vera með sínar eigin grímur en þær er þó einnig hægt að fá í skólanum. Mikilvægt er að kynna sér rétta notkun grímu og hanska og farga þeim á viðeigandi hátt í almennt rusl. Sjá nánar https://www.fb.is/myndband-um-grimunotkun-og-sottvarnir/
  • Nemandi sem er veikur eða hefur grun um að hann sé smitaður, kemur alls ekki í skólann nema eftir að hafa haft samband við heilsugæsluna.
  • Sýni nemandi einkenni á skólatíma (sjá einkenni á covid.is) er hann tafarlaust sendur heim. Haft verður samband við forráðamenn nemenda yngri en 18 ára.
  • Nemandi sem greinist með Covid-19 skal tafarlaust tilkynna það til skólameistara.
  • Smitrakning og fyrirmæli um einangrun eða sóttkví koma frá smitrakningateymi Almannavarna, engum öðrum.
  • Nemandi sem hefur farið í Covid-19 sýnatöku kemur ekki í skólann fyrr en hann hefur fengið niðurstöðu úr sýnatökunni.
  • Nemendur í sóttkví mega alls ekki koma í skólann fyrr en að lokinni sóttkví.
  • Nemendur eru almennt hvattir til að hitta aðeins nánustu vini utan skólans og forðast fjölmenni með fólki sem það umgengst lítið eða ekkert.
  • Nemendur eru hvattir til að vera með C-19 rakninga-appið uppsett og kveikt á því í símum sínum, utan sem innan skólans.

Með kærri kveðju og ósk um að ykkur gangi vel,

Reykjavík, 7. janúar 2021

Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir, skólameistari