Verknámsnemendur frá Belgíu og Danmörku dveljast hér á landi í þrjár vikur á vegum FB. Dvölin er liður í nemendaskiptasamningum Evrópusambandsins. Nemendurnir hafa allir fengið vinnu í sínu fagi og fá vinnuna metna sem hluta af sínu vinnustaðanámi. Belgarnir eru fimm rafvirkjanemar sem koma frá borginni Liege. Danirnir koma frá Herningholmskole í Herning í Danmörku. Hópurinn samanstendur af þremur verðandi smiðum, þremur verðandi rafvirkjum og tveimur verðandi pípurum.

FB sendi vorið 2012 hóp til Herning sem í voru þrír smíðanemar og þrír rafvirkjanemar. Það er okkur sönn ánægja að taka á móti hópum sem þessum og taka þátt í alþjóðlegu samstarfi. Alþjóðleg samskipti auka víðsýni nemenda, efla skilning þeirra á mikilvægi tungumálakunnáttu og veita innsýn í líf og starf fólks í útlöndum.