Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson afhendir föstudaginn 12. apríl Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, Gulleplið 2019, hvatningarverðlaun Heilsueflandi framhaldsskóla fyrir framúrskarandi heilsueflingarstarf. Verðlaunin verða afhent í FB kl. 15.00

Rannsóknir sýna að 70% framhaldsskólanema sofa of lítið hér á landi og svefnskortur hefur slæm áhrif á heilsu og vellíðan. Heilsueflandi framhaldsskólar geta stutt við bættar svefnvenjur og aukinn svefn nemenda með ýmsum leiðum s.s.

  • Að kenna um áhrif svefns á dægursveiflu, líkamsstarfsemi, frammistöðu, heilsu og líðan.
  • Að stuðla að samstarfi heimila og skóla varðandi góðar svefnvenjur.
  • Að seinka skólabyrjun að morgni.
  • Að samstilla viðburði á vegum skólans við skólabyrjun þannig að nemendur eigi ávallt kost á fullum svefni.

FB heldur uppi markvissu starfi til að bæta svefn og svefnvenjur nemenda sinna. Í skólanum hefur markviss fræðsla átt sér stað fyrir nemendur um mikilvægi svefns fyrir ungt fólk. Einnig eru gerðar tilraunir með upphaf skólabyrjunar og skólinn býður upp á sveigjanleika fyrir þá nemendur sem á þurfa að halda. Skólinn vann markvisst að því að taka upp þá þætti sem taldir eru skipta hvað mestu máli til að bæta svefnvenjur nemenda. Áhersla er lögð á svefn og svefnvenjur í foreldrasamstarfi, að nemendum sé gefinn kostur á að hefja skóladaginn síðar í samráði við námsráðgjafa og tekur þannig tillit til einstaklingsbundinna þarfa. Þá er nemendum gefið frí í fyrsta tíma eftir skólaball þannig að þau nái átta tíma svefn þrátt fyrir skólaskemmtun. Sjá nánar á vef landlæknisembættisins.