Nemendafélag FB

Nemendafélag FB er fjölmennt nemendafélag sem býður upp á mjög fjölbreytta viðburði fyrir nemendur. Þar má t.d. nefna böll, kvikmyndakvöld, íþróttakeppni, söngkeppni, paintballmót, tónleika, spilakvöld og mót í raunveruleikaleikjum svo að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Stjórn nemendafélags FB (nemendaráð) er skipuð formanni, varaformanni, skemmtanastjóra, markaðsstjóra, Hobbita og ritara en þeir sjá um daglegan rekstur félagsins og hafa yfirumsjón með öllu sem gerist á þess vegum. Auk þess er nemendafélagið málsvari nemenda gagnvart yfirvöldum skólans og gætir réttar þeirra með setu í skólaráði og áheyrnafulltrúa í skólanefnd. Innan félagsins eru síðan starfræktar 12 nefndir þær eru: Leiklistarfélagið Aristófanes, Árshátíðarnefnd, Málfundafélagið Gróa, Íþróttanefnd, Ljósmyndanefnd, Ritnefnd, Skemmtinefnd, Auglýsinga- og markaðsnefnd, Vídeónefnd, Styrktarfélagið, Tónlistarnefnd og Nördanefnd. Kosið er í nemendaráð og nefndir í apríl hvert ár en nýir fulltrúar í nemendaráði og nefndum taka við störfum í byrjun skólaárs.

Allir nemendur dagskólans eru sjálfkrafa skráðir í nemendafélag FB um leið og skólagjöld eru greidd. Aðild að NFB gefur nemendum ákveðin réttindi, þá aðallega afslátt af aðgöngumiðum á böll og aðrar uppákomur á vegum félagsins. Auk þess njóta félagar fríðinda sem nemendaráð hvers árs aflar, t.d. í formi afslátta hjá matsölustöðum og verslunum. Kjósi nemandi að vera utan NFB getur hann haft samband við nemendaráð í annarri viku hverrar annar, skráð sig úr félaginu og fengið nemendafélagsgjöldin endurgreidd.

Félagsmálateymi, skipað tveimur fulltrúum, ber ábyrgð á að aðstoða nemendur í málefnum er snerta félagslíf, forvarnir, hollustuhætti, umhverfismál.