Skólaslit Fjölbrautaskólans í Breiðholti fóru fram í Háskólabíói í dag, miðvikudaginn 28. maí. Alls útskrifuðust 169 nemendur af 7 brautum skólans. Margrét Lilja Arnarsdóttir er dúx skólans, en hún hlaut 9,19 í aðaleinkunn og lauk stúdentsprófinu á þremur árum.

Í ræðu sinni við skólaslitin lagði Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir, skólameistari FB út frá mikilvægi vandaðrar ákvörðunartöku í lífi og starfi. Til að taka góða ákvörðun þurfi einstaklingurinn að vera með skýra sýn á það hvað skipti hann mestu máli, hvaða gildi hann hafi að leiðarljósi. Síðan þurfi hann að leita uppi alla mögulega valkosti og nota vit sitt og hæfni til að vega þá og meta uns hann komist að bestu mögulegri niðurstöðu. Ákvörðun fullkomnist síðan í framkvæmdinni. Guðrún Hrefna hvatti nemendur að lokum til þess að vera sjálfir við stjórnvölinn í eigin lífi.

Fjórar stúlkur sópuðu að sér flestum verðlaunum sem veitt voru fyrir góðan námsárangur. Margrét Lilja fékk verðlaun m.a. fyrir efnafræði, íslensku, stærðfræði og þýsku; Jóhanna Kristín Jóhannesdóttir fékk m.a. verðlaun fyrir jarðfræði, umhverfisfræði og spænsku og Fanney Magna Karlsdóttir fékk m.a. verðlaun fyrir dönsku, ensku, félagsgreinar auk þess sem hún hlaut styrk úr Styrktarsjóði Kristínar Arnalds, fyrrverandi skólameistara FB fyrir framúrskarandi árangur í íslensku. Þá fékk Eyrún Guðmundsdóttir verðlaun fyrir einstakan árangur í stærðfræði, en hún tók 12 stærðfræðiáfanga; 11 þeirra með einkunnina 10 og einn með einkunnina 9.

Fjöldi fyrirtækja, félaga og stofnana gáfu útskriftarnemendum gjafir, s.s. Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Samtök iðnaðarins, Gámaþjónustan, Soroptimistaklúbbur Hóla og Fella, nokkur sendiráð erlendra ríkja og fleiri aðilar.

 

[feather_share]