Teymi FB sigraði í MEMA, nýsköpunarhraðli framhaldsskólanna 2020 með verkefnið Gára. MEMA hraðallinn vinnur með ákveðið þema tengt Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, en áskorunin sem nú varð fyrir valinu var tengd markmiði 11 um sjálfbærar borgir og samfélög. Markmið Gáru er að bæta endurnýtingu pappírs á Íslandi og með því draga úr útflutningi á sorpi. Gára styður við heimsmarkmiðið með nýtingu hringrásarhagkerfisins við framleiðslu vörunnar.  Alls tóku 70 nemendur þátt úr 7 framhaldsskólum. Sigurliðið skipa þau Lakshmi Björt Þuríðardóttir Jacob, Katrín Helga Davíðsdóttir, Guðrún Ísafold Hilmarsdóttir og Guðlaugur Hrafn Kristjánsson. Þau eru öll nemendur á brautinni, nýsköpun, hönnun og listir.  Það er FabLab Reykjavík sem skipuleggur Menntamaskínu í samstarfi við FB, Háskóla Íslands, Reykjavíkurborg og Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Til hamingju öll!