Markmið dagsins er að minna á mikilvægi íslenskunnar, fagna sögu hennar, samtíð og framtíð. Dagurinn er haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember ár hvert. Skáldið og náttúrufræðingurinn Jónas Hallgrímsson (1807-1845) var með guðfræðipróf, stundaði nám í lögfræði og lauk síðar prófi í náttúruvísindum frá Kaupmannahafnarháskóla.
Jónas var mikilvirkur nýyrðasmiður og næmi hans og virðing fyrir tungumálinu gerði honum kleift að tjá hugsanir sínar og annarra í þannig búning að nýyrði yfir hluti eða hugmyndir, sem áður áttu sér ekki samsvaranir á íslensku, og ný orð og nýjar samsetningar í ljóðum og lausu máli virðast gamalkunn og eins og hluti af grunnorðaforða málsins, (Guðrún Kvaran, 2007). 

Í tilefni dagsins taka nemendur FB þátt í nýyrðaverkefni sem íslenskukennarar og bókasafnið unnu saman. Á seinni myndinni hér að ofan er  QR-kóði sem leiðir nemendur að verkefninu. Góða skemmtun og gangi ykkur vel.