Alþjóðlegur dagur barna: Réttlátari heimur fyrir öll börn. Í dag þann 20. nóvember er alþjóðlegur dagur barna en fyrir 30 árum eða þann 20. nóvember 1989 var Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna samþykktur á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna en hann er grunnurinn að öllu sem UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna gerir.  Sem UNESCO skóli vill FB vekja athygli á stöðu barna í heiminum í dag. Á heimasíðu UNICEF segir meðal annars að barnadauði hefur minnkað um meira en helming og 93% barna á grunnskólaaldri fara nú í skóla. „Á hverjum einasta degi verða börn fyrir mismunun vegna kynferðis, fátæktar, fötlunar, félagslegrar stöðu og annarra þátta. Það er ekki sanngjarnt. Við verðum að horfa sérstaklega til barna sem eru jaðarsett og bæta stöðu þeirra. Að sjá hversu mikill árangur hefur náðst við að auka velferð barna í heiminum síðastliðin ár er hvatning fyrir okkur til að gera enn betur,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.