Í áfanganum eru kennd grunnatriði trésmíða með áherslu á þekkingu og færni í notkun handverkfæra og rafmagnshandverkfæra, trésamsetningar, límingar, pússning og yfirborðsmeðferð. Haldið er áfram umfjöllun um efnisfræði tréiðna þar sem ítarlegar er farið í ýmsa eðliseiginleika viðar, flokkun, merkingar og þurrkun. Nemendur kynnast notkun algengra tegunda viðarlíms og yfirborðsefna og tekið er fyrir val og umhirða á verkfærum s.s. stillingar, brýnsla, vinnubrögð og öryggisþættir. Nemendur læra að nota hefilbekki og stilla með áherslu á góða vinnuaðstöðu við mismunandi verk. Kennslan byggist að hluta á fyrirlestrum þar sem kennari útskýrir grunnatriði fyrir nemendum en stærsti hlutinn eru fjölbreytileg smíðaverkefni sem byggjast á markmiðum áfangans. Áfanginn er bæði ætlaður húsasmiðum og húsgagnasmiðum.