Í áfanganum kynnast nemendur þroskasálfræði og hugtökum hennar og helstu álita­málum, t.d. hlut erfða og umhverfis í mannlegum eiginleikum. Helstu kenningar verða kynntar. Fjallað er um alhliða þroskaferlil frá getnaði til gelgjuskeiðs, einkum líkams- og hreyfiþroska, vitsmunaþroska, persónuleika og málþroska. Einkum er fjallað um eðlilegan þroska en einnig lítillega um frávik og orsakir þeirra. Stiklað er á stóru varðandi þroskaferil frá kynþroska að elliárum. Álitamál eins og barneignir táninga, fóstureyðingar, starfslok og fleira verða tekin fyrir. Mótunaráhrif fjölskyldu rædd og nemandi hvattur til að skoða sig og fjölskyldu sína „utan frá” og reyna að greina sig sjálfan og samskiptin í fjölskyldunni. Nemendur vinna einstaklings­verkefni, t.d. gera tilraun eða taka viðtal, og skila ítarlegri skýrslu um niðurstöður sínar. Auk þess undirbúa þeir og flytja tveir til þrír saman fyrirlestur um efni valið af þeim eða afmarkað af kennara, t.d. um ýmis vandamál barna og unglinga.