Í áfanganum er saga mannkyns og Íslands frá lokum 18. aldar fram til nútímans kynnt. Helstu viðfangsefni áfangans eru: Franska byltingin og afleiðingar hennar, áhrif iðnbyltingar, ríkjamyndun, sjálfstæðisbarátta Íslendinga, íslenskt samfélag á 19. öld, vesturferðir, yfirráð Evrópumanna í öðrum heimshlutum, þjóðfélagsbreytingar á Íslandi á fyrri hluta 20. aldar, fyrri og síðari heimsstyrjöld, Sovétríkin, þýski nasisminn, heimskreppan, kalda stríðið, velmegun á síðari hluta 20. aldar og valdir þættir úr sögu Asíu, Afríku og Rómönsku Ameríku. Nemendur læra að gera sér grein fyrir rótum nútímaþjóðfélags á Íslandi og erlendis, þeir öðlist yfirsýn yfir sögu síðustu tveggja alda og þekkingu á helstu atburðum, einstaklingum, stofnunum og sögu einstakra ríkja. Mikilvæg markmið eru enn fremur að glæða áhuga nemenda á sögu 19. og 20. aldar og þjálfa þá í markvissum vinnubrögðum með verkefnum og ritgerð.