Áfangalýsing

Farið er yfir uppbyggingu og virkni þrífasa spenna ásamt varnarbúnaði þeirra. Tengdar eru allar algengustu tengingar á þrífasa spennum, gerðar eru mælingar og útreikningar á málgildum, teiknaðar tengimyndir af viðkomandi tengingum. Farið er yfir uppbyggingu og virkni þrífasa hreyfla ásamt ræsi- og varnarbúnaði þeirra. Gerðar eru ræsi- og álagstilraunir á spanhreyflum með handvirkum, segulliða og rafeindastýrðum ræsibúnaði, teiknaðar tengimyndir, gröf og kennigildi af viðeigandi mælingum og útreikningum. Gerð er grein fyrir þeim hreyfilgerðum er koma fyrir sem aflvélar í kælivélum, lyftum, dælum og öðrum vélbúnaði sem notaður er í iðju og iðnaði, bilanagreiningu og fyrirbyggjandi viðhald véla og tækja. Farið er í leiðréttingu á fasviki. Kynnt er raforkuframleiðsla með vindafli, sólarorku og vetni sem orkumiðlum. Fjallað er um frágang og öryggisreglur við niðursetningu véla og slysahættu sem fylgja vinnu við rafbúnað og vélrænan búnað. Æfð er meðferð og notkun mælitækja. Gerð er grein fyrir þýðingu merkiskilta á vélum og tækjum. Kynntir eru þeir staðlar er varða byggingu, mál­setningu, merkiskilti, öryggis- og varnarflokka viðkomandi rafvéla og tækja. 

Áfangamarkmið

Nemandi

  • þekki algengustu tengingar spennubreyta, uppbyggingu og hlutverki þeirra í dreifikerfum landsins
  • þekki uppbyggingu, virkni og hlutverk riðstraumshreyfla ræsi- og tengibúnað þeirra við veitu og vélbúnað
  • þekki vinnuferli rafhreyfla er knýja verkfæri, kælikerfi, lyftur, og iðnvélar í iðju og iðnaði
  • þekki öryggiskröfur sem gerðar eru til frágangs aðtauga- og vélrænna tenginga verkfæra og iðnvéla
  • þekki öryggiskröfur sem gerðar eru til rafeindastýrðra ræsa og aflstýringa fyrir riðstraums­hreyfla
  • þekki búnað sem notaður er við að breyta vindorku, sólarorku og vetni í raforku
  • geti teiknað tengimyndir og kennilínur spennubreyta og riðstraumshreyfla, og reiknað mis­munandi gildi út frá merkiskiltum og mælingum
  • geti valið og tengt eftir tengimyndum viðeigandi ræsi- og tengibúnað við riðstraumshreyfla
  • geti gengið frá afl- og aðtaugatengingum rafhreyfla
  • hafi gott vald á uppbyggingu og virkni ræsibúnaðar fyrir riðstraumshreyfla
  • hafi gott vald á nöfnum og hugtökum, hita- og varnarflokkum riðstraumshreyfla
  • hafi gott vald á gögnum er leiða í ljós val á ástengjum, reima- og tannhjólatengjum ásamt hlífabúnaði
  • hafi gott vald á verkfærum og mælitækjum sem notuð eru við viðhald og viðgerðir véla og tækja
  • hafi gott vald á notkun þjónustubóka, heitum og hugtökum rafvéla

Efnisatriði

Beintenging, Y/D-tenging, pólumtenging, Y/Y-sáturtenging, snúðtenging, snúningsskiptir, Y/D-rofi, dahlander-rofi, hraðaskiptir, snúðræsibúnaður, skammhlaupsvörn, yfirstraumvörn, yfirhitavörn, mjúkræsir, fasastýring, tíðnibreytir, öxulálag (bremsa), sveigjumælir.

Námsmat

Byggt er á verkefnavinnu, skýrslum og lokaprófi. Lágmarkseinkunn er 5.