Áfangalýsing

Í þessum áfanga er fjallað um framleiðslu á þrífasa spennu. Sýnt er hvernig sínuslaga spenna myndast í þrífasa rafölum og vektormyndir þeirra. Farið er yfir myndun hverfisegulsviðs og áhrif þess í raf­vélum. Fjallað er um tengingar á þrífasa spennum og vélum og gerðar tengimyndir af þeim. Gerð er grein fyrir helstu þrífasa mælitækjum og tengingu þeirra og fjallað um áhrif bilana á rekstur þrífasa kerfa. Leyst eru einföld verkefni er varða rekstur þrífasa spenna, tækja og véla. Þá er farið í þrífasa rafmótora, rafala, spenna, rafvélar, og tæki.

Áfangamarkmið

Nemandi

  • þekki þrífasa tæki, spenna, rafala og vélar, þ.m.t. kennigildi og tákn þeirra og geti sett upp jafngildismyndir þeirra
  • þekki til framleiðslu á þrífasaspennu og geti gert myndir af þrífasatengingum
  • þekki afleiðingar sem rof í rekstrartaugum hefur í för með sér bæði á aflyfirfærslu, strauma og spennur kerfisins
  • þekki rekstrareiginleika og virknimáta rafknúinna þrífasa véla og tækja
  • þekki öll helstu rafmælitæki með tilheyrandi búnaði
  • þekki ræsiaðferðir og ræsa fyrir þrífasa hreyfla
  • þekki truflanir sem rekja má til neyslutækja og búnaðar og aðferðir við deyfingu þeirra
  • þekki fasvik í þrífasa kerfi og hvernig draga má úr áhrifum þess
  • geti fundið innri og ytri strauma og spennur í þrífasa jafnlægu álagi
  • ákveðið hvernig tengja skuli þrífasa tæki, spenna og vélar eftir upplýsingum á kennispjaldi þeirra
  • geti lýst uppbyggingu og virkni á framangreindum búnaði og gert teiknitákn fyrir hann
  • geti gert tengimyndir af framangreindum búnaði og fundið afl, strauma og spennur með útreikningum
  • geti sýnt með tengimyndum hvernig tengja skal mælitæki við þrífasa spennugjafa og álag
  • geti gert lögbundnar mælingar í neysluveitum
  • geti fundið álagsstrauma í mismunandi raforkuveitum og neysluveitum bæði við jafnlægt og ójafnlægt álag
  • hafi gott vald á helstu hugtökum raffræðinnar
  • hafi gott vald á virkni þrífasa spennugjafa
  • hafi gott vald á útreikningum á þrífasa álagi
  • Efnisatriði

    Samfasarafall, snúningshraði, tíðni, pólafjöldi, töp, nýtni, kennigildi og tengimyndir þrífasa spenna, hreyfla og samfasa rafala. Álagsstraumar innri og ytri þrífasa hitatækja, spenna, hreyfla og samfasa rafala. Afl, raun-, laun- og sýndarafl. Mælitæki, A-, V-, W, cos fí VAr, kWh, fasasjá, mælaspenna o.s.frv. Jafngildismyndir, jafngildi samviðnáms rað- og hliðtenginga. Afljafngildi Y- og D-tenginga. Fas­vik og fasviksjöfnun í þrífasakerfum.

    Námsmat

    Byggt er á verkefnavinnu, skýrslum og lokaprófi. Lágmarkseinkunn er 5.