Nemendur kynnast jarðfræðinni sem vísindagrein og tengslum hennar við aðrar greinar. Í áfanganum er farið í grunnatriði kortagerðar og læra nemendur m.a. að teikna þversnið með mismunandi jarðlögum. Farið er í grunnatriði stjörnufræðinnar og sérstaða jarðarinnar í því ljósi skoðuð sem og samspil tungls og jarðar. Eitt af lykilhugtökum áfangans eru tengsl manns og náttúru og er nýting mannsins á auðlindum jarðarinnar skoðuð í því ljósi. Nemendur fræðast um lofthjúp jarðar og áhrif hans á yfirborð jarðar og afleiðingar mengunar í lofthjúpi jarðar. Hafið, hafstraumar og mengun hafsins er einnig tekið fyrir. Nemendur læra um innviði jarðarinnar og landrekskenninguna og áhrif hennar á jarðskorpuna svo sem eldvirkni og jarðskjálfta. Farið er í útræn öfl og þá sérstaklega vatnið og beislun vatnsorkunnar. Jarðfræði háhita- og lághitasvæða er skoðuð svo og nýting þeirra og umhverfisáhrif. Nemendur vinna verkefni sem tengjast efni áfangans og farið er í eina vettvangsferð út fyrir borgina.