Í áfanganum fer fram kynning á séreinkennum líffræði sem vísindagreinar og tengslum við aðrar greinar. Fjallað er um dreifkjarnafrumur, kjarnafrumur, gerð og hlutverk helstu frumuhluta og frumuskiptingar. Farið er í efni í frumum; ólífræn efni og helstu flokka og hlutverk lífrænna efna. Gerð er grein fyrir vefjum, líffærum og líffærakerfum. Rætt er um helstu flokka lífvera með áherslu á örverur og hugmyndir um uppruna lífs á jörðu. Grundvallarþættir erfðafræði eru teknir fyrir. Þá verður fjallað um gerð og starfsemi vistkerfa með áherslu á efna- og orkuflutning, mikilvægi fjölbreytileikans innan vistkerfa og áhrif mannsins. Verklegar æfingar og verkefni í tengslum við efni áfangans. Stefnt er að því að nemendur geri sér grein fyrir eðli og hlutverki líffræðinnar sem vísindagreinar, þekki vísindalega aðferð og þjálfist í að beita nokkrum rannsóknaraðferðum líffræðinnar, þekki helstu efnaflokka sem lífverur eru byggðar úr og hlutverk þeirra, þekki gerð og starfsemi frumna, skilji grunnhug­myndir í erfðafræði, þekki lífshætti og gerð veira, gerla, sveppa og sníkjudýra, þekki gerð og þróun íslenskra vistkerfa, skilji gildi ósonlagsins og koltvíoxíðs í andrúms­lofti fyrir lífverur og geri sér grein fyrir því hvernig vistkerfi eru nýtt í þágu manna.