Í áfanganum vinna nemendur á kerfisbundinn hátt með málningu og liti sem og í tölvum. Þeir kynna sér mun á blöndunarþáttum lita og hvernig litur breytist út frá breytingum í tón, blæ eða ljósmagni. Þeir skoða litaandstæður og litasamspil á kerfisbundinn og einfaldan hátt með mögulega táknun og merkingu í huga. Smám saman auka þeir við litaskalann, taka inn fjölbreyttari milliliti, jarðliti og aðra brúna tóna. Nemendur vinna markvisst með fjölbreytta liti og litablöndun með möguleika sína á persónulegri tjáningu í málverki í huga. Nemendur læra að vinna með litafræði í forritunum illustrator og photoshop; mismunandi virkni lita er könnuð eins og andstæðurnar þungt – létt og nær – fjær, gegnsæi og áhrif lita á rýmisskynjun eru einnig rannsökuð. Að lokum er unnin stuttmynd með áherslu á lit.